Grindavíkurveg á samgönguáætlun

Ljósmynd: Otti Sigmarsson

„Það myndi kosta yfir 600 milljarða að gera vegakerfið á Íslandi mjög gott. Við erum bara svo fámenn þjóð m.v. stærð og umfang vegakerfisins. Sjáið Danmörku, lítið land með marga skattgreiðendur. 6 milljón manna þjóð.“ Þetta er bláköld staðreynd fyrir íslensku þjóðina. Þessa staðreynd lagði núverandi samgöngumálaráðherra, Jón Gunnarsson á borð fyrir okkur, fulltrúa Grindavíkur, á fundi með honum í vor. Þetta er rétt hjá honum. Það kostar hellings fjármuni að halda samgöngum ásættanlegum  og mjög víða er pottur brotinn. Þess vegna er eðlilegt að forgangsraða. En okkur getur sannarlega greint á um hvað eigi að vega þyngra en annað. Grindavíkurvegur á að vera á samgönguáætlun.

Í vetur kom saman hópur til samráðs um hvenig best væri að nálgast ríkisvaldið varðandi umbætur á Grindavíkurvegi. Fulltúar bæjarstjórnar, bæjarstjóri og fulltrúar stærstu fyrirtækjanna í Grindavík komu saman til skrafs og ráðagerða. Í vor höfðum við nokkur farið á fund með Vegagerðinni, samgöngumálaráðherra og fjármálaráðherra. Þar lögðum við fram gögn og myndir og lýstum verulegum áhyggjum með ástand Grindavíkurvegar og lögðum fjölmörg rök fram til að réttlæta veru vegarins á samgönguáætlun. Þangað hefur hann enn ekki komist.

Núverandi framkvæmdir á veginum

Grindvíkingar hafa orðið varir við framkvæmdir á veginum í sumar og núna í haust. Slitlag var lagað á verstu köflum með malbikun og síðan hefur hann verið holufylltur. Í svari frá vegamálastjóra við fyrirspurn minni fyrir helgi sagði hann að ljúka ætti framkvæmdum við holufyllingar fyrir veturinn. Þá væri ennþá verið að vinna að því að bregðast við umferðaröryggisáætluninni sem unnin var í vor. Hún snérist í stóru máli um að laga umhverfi vegarins þar sem útafakstur væri lang algengastur þegar fjöldi slysa var greindur. Unnið er að því að laga kanta og fláa og verið er að reikna út kostnað til að setja upp vegrið á einhverjum stöðum.

Fjölmargir hafa lýst yfir áhyggjum varðandi nýja slitlagið og talið það vera of sleipt og að það geti valdið hættu þegar rignir mikið og fer að frysta. Vegamálastjóri var m.a spurður út í þetta í fyrirspurn minni. Hann sagði Vegagerðina hafa verið að vakta samskonar kafla við Hamraborgina í Kópavogi. Viðnámsmælingar hafi sýnt að viðnám væri vel yfir viðmiðunarmörkum og nokkrum mánuðum seinna hafði viðnám aukist enn frekar. Um leið og nagladekk færu í notkun myndi yfirborðið breytast og ekki verða svona slétt. Að fara í aðgerðir til að laga núverandi stöðu myndi ekki endilega skila okkur betra yfirborði. Ergo: nýja slitlagið á að vera öruggt.

Tvær tillögur á borði Vegagerðarinnar varðandi Grindavíkurveg

Í samantekt í minniblaði sem Vegagerðin sendi bæjarráði í vor lágu fyrir tvær tillögur. Í stað þess að eyða tíma í að umorða þær legg ég þær hér fram eins og þær komu fram í minnisblaðinu ásamt niðurstöðu minnisblaðsins:

Tillaga 1, lagfæring hliðarsvæða og sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit8.

Afleiðingar umferðaróhappa verða alvarlegri ef hraði er mikill. Afar mikilvægt er að ná hraða niður á Grindavíkurvegi. Aðgerðir á vegum til að bæta umferðaröryggi felast oft í að lagfæra hliðarsvæði vega þannig að skaði verði sem minnstur við akstur út af vegi. Þegar er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við hliðarsvæði Grindavíkurvegar á þessu ári.

Með sjálfvirku meðalhraðaeftirliti er átt við nýja aðferð sem reynst hefur afar vel erlendis enrannsóknir sýna að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hefur mjög jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Það fer þannig fram að tvær myndavélar eru samtengdar og teknar eru myndir af öllum ökutækjum sem fara um kaflann á milli myndavélanna, fyrst við myndavél A og síðan við myndavél B. Vegalengdin á milli vélanna er þekkt og út frá tímanum sem það tekur ökumann að aka á milli þeirra má því reikna meðalhraða hans á kaflanum. Ef meðalhraðinn reynist það mikill að ljóst sé að ekið hafi verið á ólöglegum hraða er gripið til viðeigandi aðgerðar lögum samkvæmt.

Með þessari lausn má búast við verulegri fækkun slysa með meiðslum á fólki auk þess sem alvarleiki þeirra slysa sem verða verður minni. Ekki verður komið í veg fyrir slys sem verða við að ekið er framan á annað ökutæki en allur útafakstur verður hættuminni og hraðakstur fátíðari.

Tillaga 2, aðskilnaður akstursstefna

Til að koma í veg fyrir akstur framan á annað ökutæki verður að aðskilja akstursstefnur. Vegagerðin hefur lengi talað fyrir slíkum lausnum en því miður er það svo að ýmsir vegir færu væntanlega ofar í þá forgangsröðun en Grindavíkurvegur sökum umferðarþunga. Aðskilnaður akstursstefna yrði skv. vegtegund B12. Miðjuvegrið yrði á miðdeili sem þýðir breikkun vegar um að lágmarki 2 metra. Jafnframt þarf að lagfæra hliðarsvæði veganna og tryggja lágmarks framúrakstursmöguleika en skv. veghönnunarreglum skal tryggja að lágmarki þrjá möguleika á framúrakstri á hverjum 5 km. Loka þarf eins mörgum tengingum og kostur er á og halda þannig fjölda vegamóta í algjöru lágmarki. Lágmarksfjarlægð á milli vegamóta á slíkum vegi er 1,2 km. Áætlaður kostnaður er 1.400 m kr. Fjöldi vegamóta og lengd hliðarvega er áætlað.

Með þessari lausn má búast við að komið verði í veg fyrir slys þar sem ekið er framan á annað ökutæki. Afleiðingar af útafakstri verða minni þar sem hliðarsvæði vega verða lagfærð á sama hátt og í tillögu 1.

Athuga þarf matskyldu slíkra framkvæmda m.t.t. þess að stór hluti veglínunnar er á svæði sem er á náttúruminjaskrá.

 Niðurstaða.

Ljóst er að mikil ásókn er í fé til samgöngumála og að mörgum brýnum verkefnum hefur verið frestað eða þau jafnvel ekki komist á dagskrá. Ávinningur af tillögu 1 yrði mjög mikill og líta mætti á þær aðgerðir sem fyrsta áfanga í að auka umferðaröryggi á Grindavíkurvegi. Með því að minnka hraða og lagfæra hliðarsvæði má búast við verulegri fækkun slysa með meiðslum auk þess sem alvarleiki þeirra slysa sem verða verður minni. Dýrar aðgerðir eins og að skilja að akstursstefnur kalla á hönnun, könnun á matsskyldu og mögulega breytingar á skipulagi. Slíkt tekur tíma og hefja mætti þá vinnu samhliða framkvæmdum skv. tillögu 1.

 

Það er væntanlega hlutverk Vegagerðarinnar að leggja fram raunhæfar tillögur m.v. stöðuna sem uppi er hverju sinni og það fjármagn sem stofnunin hefur til viðhalds og endurbóta. Við höfum margoft tekið það fram að úrbætur á Grindavíkurvegi þoli enga bið. Það er hins vegar ekki í höndum Vegagerðarinnar að setja veginn inn á samgönguáætlun. Við þurfum áfram að berjast fyrir því á vettvangi ríkisvaldsins.

Samráðshópurinn hefur hug á að hittast fljótlega og fara yfir stöðuna (erum að finna tíma sem hentar sem flestum). Það eru ákveðin tækifæri núna að herja á þá stjórnmálaflokka sem bjóða fram til þings í lok október. Jón Gunnarsson sagði í vor að mögulega gæti Grindavíkurvegur komist inn á áætlun í haust eða í síðasta lagi um áramótin við endurskoðun samgönguáætlunar. Mjög líklega mun ekkert gerast hvað það varðar fyrir kosningar. Við höldum þó enn í vonina þrátt fyrir að endurnýjun og uppstokkun liggi fyrir hjá ríkisvaldinu. Vonandi munum við mæta skilningi og fá verulegar umbætur í gegn á handónýtum vegi eftir kosningar.

 

Kristín María Birgisdóttir

Formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar

 

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s