Brýnt að auka öryggi á Grindavíkurvegi

Ástand Grindavíkurvegar hefur legið þungt bæði á íbúum og bæjaryfirvöldum í mörg ár. Vegurinn er mjög fjölfarinn og ljóst að umferð um  hann mun aðeins aukast. Það er því mjög brýnt að farið verði í að laga hann sem allra fyrst.

Samráðshópur myndaður

Samráðshópur um bættari og öruggari Grindavíkurveg var settur á laggirnar í janúar. Hópinn skipa fulltrúar bæjaryfirvalda, bæjarstjóri og fulltrúar frá stærstu fyrirtækjunum í Grindavík; Bláa Lóninu, Þorbirni, Vísi, Hópsnesi og Jóni og Margeir. Málstaðurinn er þess eðlis að með því að leggjast saman á árarnar eru vonir um að eitthvað verði að gert og öryggi aukið.

Fulltrúar samráðshópsins, undirrituð, Fannar Jónasson bæjarstjóri, Vilhjálmur Árnason þingmaður, Otti Sigmarsson einn eiganda HP gáma og Jón Gunnar Margeirsson einn eigenda Jóns og Margeirs áttu góðan fund með vegamálastjóra og fleira starfsfólki sl. fimmtudag. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel undurbúinn bæði vegamálastjóri og starfsfólk hans var fyrir komu okkar. Greinagóð gögn lágu fyrir, bæði varðandi umferð um veginn, slysatíðni og með hvaða hætti þau eiga sér stað ásamt dreifingu umferðar yfir sólarhringinn.

Fundur með vegamálastjóra

Óskað var eftir fundi með vegamálastjóra til að ræða ástand Grindavíkurvegar og mögulegar lagfæringar m.t.t. umferðaröryggis. Vegamálastjóri gerði á fundinum grein fyrir stöðu fjárveitinga til umferðaröryggisaðgerða annars vegar og til stærri framkvæmda hins vegar ásamt því að ræða stöðu samgönguáætlunar almennt. Fjárlög ársins 2017 gera ráð fyrir mun lægri fjárveitingum til vegamála heldur en samgönguáætlun gerði ráð fyrir sem er mjög miður. Meginreglan er að sögn Vegagerðarinnar að forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun sé fylgt þó fresta þurfi ákveðnum framkvæmdum milli ára. Framkvæmdir, sem ekki hafa verið á áætlun, lendi að jafnaði aftar í tíma við endurskoðun.

Fulltrúar samráðshópsins gerðu grein fyrir vaxandi óöryggi og jafnvel skrekk í íbúum vegna þeirra slysa sem orðið hafa á Grindavíkurvegi í gegnum tíðina. Umferðaraukning er mikil vegna fjölgunar ferðamanna, en einnig vegna íbúafjölgunar í Grindavík og aukinnar starfsemi á Bláa Lóns-svæðinu, m.a HS-veitna. Ákveðið var að gera sérstaka umferðaröryggisúttekt á Grindavíkurvegi á næstunni í samræmi við reglugerð um umferðaröryggisstjórnun vega. Úttektin mun m.a. ná til öryggissvæðisins við hlið vegar. Gerð verður áætlun um lagfæringar til að öryggissvæðið uppfylli núgildandi kröfur í veghönnunarreglum. Hér er t.d. verið að tala um að fjarlægja hraunklappir sem eru of nærri veginum.

Umferð aukist verulega frá 2009

Að sjálfsögðu lagði samráðshópurinn ríka áherslu á fundi sínum með vegamálastjóra að mikilvægt væri að fara strax í aðgerðir. Ljóst er á öllum tölum að umferð um Grindavíkurveg hefur aukist verulega. Ef við skoðum gögn vegagerðarinnar um umferðaraukningu frá árinu 2009-2016 má sjá eftirfarandi:

  • Meðalumferð á dag allt árið hefur farið úr 2.702 í 4.232 (57%)
  • Meðalumferð á dag yfir sumartímann hefur farið úr 3.029 í 4962 (64%)
  • Meðalumferð á dag yfir vetrartímann hefur farið úr 2.393 í 3.731 (56%)

Meðaldreifing umferðar á veginum yfir daginn er þannig að mest er álagið klukkan 16:00 á virkum dögum og klukkan 15:00 á föstudögum. Hægt er að skoða dreifinguna betur á meðfylgjandi mynd.

Vegagerðin mun gera kostnaðaráætlun fyrir „2+1 veg“ alla leið frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík. Fulltrúar Grindavíkurbæjar munu, í viðræðum við fjárveitingavaldið, áfram leggja höfuðáherslu á endurbætur Grindavíkurvegar, en ljóst er að aðskilnaður akstursstefna, hvort sem er fyrir 1+1 veg eða 2+1 veg, verður ekki framkvæmdur nema til komi sérmerktar fjárveitingar. Við höfum því óskað eftir fundi með fjármálaráðherra til að þrýsta frekar á um fjárveitingar svo gera megi Grindavíkurveg öruggari.

Umferðarslys samfélaginu dýr

Í svörum við fyrirspurn sem Vilhjálmur Árnason þingmaður sendi heilbrigðisráðherra varðandi kostnað sem hlýst af þeim fjölda  umferðarslysa sem eiga sér stað víða um land fengust tölurnar 50 milljarðar á ári. 50 þúsund milljónir.

M.v. fjölda ferðamanna og farþegaspá ISAVIA næstu ár er morgunljóst að aðgerða er þörf og ástandið þolir enga bið. Þeim fjölgar stöðugt sem ekki þekkja vegakerfið og hafa litla sem enga reynslu af því að aka um íslenska vegi. Af þeim sökum er gríðarlega mikilvægt að gera vegakerfið okkar þannig að það taki við þegar ökumaður gerir mistök og að mistökum fækki.

Stöðvun í vegkanti stórhættuleg

Fjölmörg dæmi er um að erlendir ferðamenn leggi bílum sínum úti í vegkanti eða hreinlega á miðjum veginum til að skoða hraunið eða norðurljósin. Það er bara tímaspursmál hvenær illa fer. Meðan ekki hafa verið gerðar breytingar á veginum er mjög mikilvægt að bæði þeir sem fara um veginn og þeir sem selja ferðir hingað eða leigja út bílaleigubíla brýni fyrir ökumönnum að slíkt athæfi er lífshættulegt og hefur þegar kostað fólk lífið. Þessar áhyggjur lýstum við á fundi með vegamálastjóra í síðustu viku.

Vegamót við Bláa Lónið

Bláa Lóns vegamótin (Norðurljósavegur) voru rædd sérstaklega, en reynslan sýnir að bæta þarf merkingar, því margir ökumenn átta sig ekki á stefnugreiningum. Þá var bent á að hliðarhalli væri óþægilega mikill í austustu akreininni og að setja mætti upp stórt skilti norðan vegamótanna með lengri fyrirvara um að þau væru framundan. Bent var á að ferðamenn stöðvuðu bíla sína í vegkanti nánast hvar sem er á leiðinni, en þó kannski mest við grófa hraunið milli Norðurljósavegar (inn að Bláa Lóninu) og Gíghæðar. Þessir bílar valda verulegri hættu fyrir aðra umferð. Rætt var um áningarstað á Gíghæð við hellisopið, en umferð að og frá áningarstaðnum er vaxandi og veldur truflun og jafnvel hættu. Fram kom tillaga um að aðskilja hægri beygju af Norðurljósavegi og gera aðrein á Grindavíkurveginn til suðurs en það myndi gera vegamótin auðskiljanlegri og þar með auka öryggi og draga úr truflun af hægfara bílum. Einnig var rætt um þann möguleika að reyna að beina „heimamönnum“ á að nota syðri hluta Norðurljósavegar, vestan Þorbjörns, til að draga úr umferð á vegamótunum við Grindavíkurveg. Á veturna þyrfti þá að sinna þessum hluta vegarins, jafnvel í samvinnu Vegagerðarinnar og bæjarins.

Hvaða leiðir eru færar?

Í umræðum á fundi með vegamálstjóra kom m.a. fram að ekki væri ráðlegt að aðskilja akstursstefnur á stuttum kafla, sem einungis myndi leiða til meiri þrýstings á framúrakstur utan þess kafla. Við í bæjarstjórn lítuum jákvætt á hugsanlegt sjálfvirkt hraðaeftirlit með myndavélum, en það hefur ekki verið sérstaklega rætt við lögregluyfirvöld. Vegagerðin hefur verið að reyna sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit, sem gæti verið áhrifamest á Grindavíkurvegi, en til þess skortir heimild innanríkisráðuneytisins auk myndavélabúnaðar. Vegagerðin mun eins og áður segir gera kostnaðaráætlun fyrir „2+1 veg“ alla leið frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík. Við fulltrúar bæjarins munum síðan, í viðræðum við fjárveitingavaldið, áfram leggja höfuðáherslu á endurbætur Grindavíkurvegar, en ljóst er að aðskilnaður akstursstefna, hvort sem er fyrir 1+1 veg eða 2+1 veg, verður ekki framkvæmdur nema til komi sérmerktar fjárveitingar. Undirrituð hefur þegar óskað eftir fundi með fjármálaráðherra og bíður eftir að fá svör um tímasetningar þess fundar.

 

F.h. Samráðshóps um bættan og öruggari Grindavíkurveg

Kristín María Birgisdóttir

Forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar

 

 

Ítarlegri gögn um slys á Grindavíkurvegi

Hér á eftir má líta á frekari gögn vegagerðarinnar um þau slys og óhöpp sem orðið hafa á Grindavíkurvegi frá janúar 2009  – 31. október 2016

Í gögnum frá vegagerðinni hafa verið teknar saman upplýsingar um öll þau slys og óhöpp sem orðið hafa á Grindavíkurvegi frá 1. janúar 2009 – október 2016. Í þessum gögnum eru ekki meðtalin þau slys sem orðið hafa það sem af er árinu 2017.

Banaslys: 1

Slys með miklum meiðslum: 14

Slys með litlum meiðslum: 30

Eignatjón: 45

Skiptingu slysa eftir tegundum og afleiðingum má sjá betur í meðfylgjandi töflu. (hægt er að smella á mynd til að sjá stærri)

 

Eins og sjá má er útafakstur til hægri m.v. akstursstefnu algengasta slysategundin eða í 49% tilfella. Þegar einungis eru skoðuðu slys með meiðslum sést að um er að ræða útafakstur til hægri í 26 tilvikum eða um 58% allra slysa með meiðslum eða bana á kaflanum. Ef einungis eru skoðuð slys með miklum meiðslum eða bana sést að í sjö tilvikum, 47% var ekið út af til hægri.

 

Á þessari mynd má sjá kort af öllum slysum á Grindavíkurvegi frá janúar 2009 – 31. október 2016:

 

Svartur punktur táknar banaslys, rauður punktur stendur fyrir  slys með miklum meiðslum, gulur punktur táknar slys með litlum meiðslum og grænn punktur stendur fyrir eignatjón.

Alls urðu 46 slysanna eða um 51% allra slysa á kaflanum á þessu athugunartímabili, í hálku, ísingu eða snjó. Skipting slysanna við þessi skilyrði má sjá í þessari töflu:

 

 

Slysin sem verða í hálku, ísingu eða snjó eru langalgengast þannig að ekið sé út af vegi til hægri, miðað við akstursstefnu, eða í 31 tilviki af 45 sem er þá í 67% tilvika. Á eftirfarandi mynd má sjá kort af þeim slysum sem urðu á Grindavíkurvegi á athugunartímabilinu, í hálku, ísingu eða snjó.

 

 

Akstursstefnur aðskildar

Samráðshópurinn hefur lagt ríka áherslu á að akstursstefnur á Grindavíkurvegi verði aðskildar. Þær hugmyndir lögðum við líka á borð fyrir vegamálastjóra og hans sérfræðinga í síðustu viku. Í gögnum vegagerðarinnar er sá möguleiki reifaður og aðstæður þegar slysin urðu.

Aðskilnaður akstursstefna með uppsetningu vegriðs hefur fyrst og fremst áhrif á þau slys sem verða við það að bifreið ekur framan á aðra og þau slys sem verða við það að ekið er út af til vinstri.

Fjöldi slysa á kaflanum þar sem ekið var framan á eða út af vegi til vinstri urðu 16 á athugunartímabilinu eða í um 18% allra slysa á kaflanum. Þar af urðu 20 slys með meiðslum eða bana eða 22% allra slysa með meiðslum eða bana á kaflanum. Banaslys varð eitt en eru nú orðin þrjú sé það sem af er árinu 2017 tekið með.

Ef einungis eru skoðuð slys með miklum meiðslum eða bana sést að í 4 tilvikum af 15 eða í 27% tilvika var ekið framan á eða út af vegi til vinstri. Myndin hér fyrir neðan sýnir kort af slysum sem urðu við það að bifreið var ekið framan á aðra eða út af vegi til vinstri á umræddum kafla á Grindavíkurvegi á athugunartímabilinu.

 

 

Í sjö af þeim 16 tilvikum, eða í 44% tilvika, þar sem bifreið var ekið framan á aðra eða út af til vinstri, var færð skráð sem hálka, ísing eða snjór. Sjá mynd að neðan.

 

Hálkumyndun á Grindavíkurvegi

Þrír staðir eru varasamastir þegar kemur að hálkumyndun á Grindavíkurvegi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur  vann úttekt á þessum svæðum. Þessir staðir eru við Seltjörn, vegamót að Bláa Lóninu og svo í lautinni við Svartsengi. Eftirfarandi upplýsingar fengum við á fundi með vegamálastjóra þar sem teknar hafa verið saman staðbundnar hálkuaðstæður á Grindavíkurvegi:

Seltjörn

“Kaflinn við Seltjörn er sérlega varhugaverður fyrir margra hluta sakir. Vegurinn liggur í lægð og í beygju að auki. Þarna er eiginlegur kuldapollur, hraunið sunnan og austanvert dregur úr vindi og ofan Seltjarnar eru ásar sem vaxnir eru dálitlum greniskógi og þeir mynda líka skjól. Þarna fellur hitinn fyrr en annars og sé vegurinn blautur kólnar vegyfirborðið niður fyrir frostmark. Í pollum eins og þessum situr kalt loft og úrkoma fellur því frekar sem krapi eða snjór en annars í umhverfinu og einnig getur við viss skilyrði verið frostrigning af sömu ástæðum. Það er einnig mat manna að raki frá Seltjörninni hjálpi til við myndunar héluísingar, en þá verður að hafa í huga að í kuldatíð leggur hana fljótt. “

Vegamót að Bláa Lóninu

“Vegurinn liggur um lægð á um 400 metra kafla beggja vegna við gatnamótin að Bláa Lóninu. Þarna er skjólsælt, bæði dregur gróft hraunið verulega úr vindinum í neðstu metrunum, en aflangt Sýlingafell er að suðaustanverðu veitir skjól sérstaklega í SA-vindi. Þessi staður er ekki sá versti, en samt vathugaverður þegar glerísing á blautum vegi er annars vegar.”

Laut við Svartsengi

“Til móts við orkuverið í Svartsengi fer vegurinn um lægð, en þessi lægð kallast reyndar Svartsengi. Á sama stað er beygja á veginum. Kaflinn nær rétt ofan gatnamóta við borpúða og upp í Selháls undir Þorbirni. Þarna eru varasamar hálkuaðstæður og Sýlingarfellið skýlir fyrir öllum A-lægum vindi. Þarna þykir almennt séð mjög skjólsælt og hraunið í vestri og norðri dempar að auki allan vind. Gufu leggur upp úr hrauninu skammt vestan við þennan stað, en almennt er álitið að hún hafi ekki áhrif á þjóðveginum til aukinnar hélumyndunar. Það er í það minnsta ekki reynsla þeirra sem  hvað best þekkja til á þessum slóðum.”

Umferðaröryggisáætlun Grindavíkurbæjar (október 2010)

Eftirfarandi upplýsingar eru úr umferðaröryggisáætlun Grindavíkurbæjar en hún var m.a. unnin út frá gögnum af íbúafundi sem haldinn var um umferðaröryggismál. Þá hafði almenningur í Grindavík miklar áhyggjur af ástandi vegarins. Í sjö ár hafa bæjaryfirvöld í Grindavík verið í samskiptum við Vegagerðina. Eins og sjá má á þessum liðum hefur þegar verið brugðist við nokkrum þeirra. Grindavíkurvegur heyrir undir Vegagerðina.

1 Þarf að taka veginn í gegn, breikka og malbika upp á nýtt

Svar Vegagerðarinnar: Vegagerðin hefur undanfarin ár unnið að styrkingu axla á Grindavíkurvegi og malbiksyfirlögn. Grindavíkurvegur er á þeim köflum allt að nærri 9 m breiður. Áfram verður unnið að þessum endurbótum næstu ár.

2 Beygjur við Selháls eru slysapunktur.

Svar Vegagerðarinnar: Eftir er að laga axlir og malbika, sjá lið 1.1. Auk þess mun Vegagerðin huga sérstaklega að öryggissvæði Grindavíkurvegar.

3 Axlir eru sprungnar, gætu verið slysagildrur.

Svar Vegagerðarinnar: Sjá svar að ofan.

4 Þarf lýsingu við Grindavíkurveg.

Svar Vegagerðarinnar: Það er ekki á áætlunum Vegagerðarinnar að lýsa Grindavíkurveg. Áhersla Vegagerðarinnar er frekar á að lýsa vegmót sérstaklega.

5 Hvar á að tengja Grindavíkurveg við Selskóg?

Svar Vegagerðarinnar: Vegagerðin er sammála því að þessi tenging er á slæmum stað og tekur vel í að finna henni nýjan og öruggari stað.

6 Þarf að beita sér fyrir eftirfarandi: Hvaða áhrif hefur veður á Grindavíkurvegi, t.d. myndast einungis kuldapollur/frost við Seltjörn. Leiðinleg beygja á sama stað. Hnitaskráning slysa er ekki regla hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hraðaeftirliti er ábótavant.

Svar Vegagerðarinnar: Grindavíkurvegur er í þjónustuflokki 1. Vegagerðinni er kunnugt um að mörg óhöpp á Grindavíkurvegi verða þegar hálka eða ísing er á veginum. Sérstaklega verður fylgst með að þjónustuaðilar bregðist við tímanlega þegar slíkt ástand er væntanlegt.

7 Hjólreiðamenn – hvar eiga þeir að vera á leið til og frá Bláa Lóni (rifflur)?

Svar Vegagerðarinnar: Rifflur verða héðan í frá utan akbrautar, það er niðurstaða tilrauna. Enginn hjólreiðastígur er á áætlunum Vegagerðarinnar meðfram Grindavíkurvegi.

8 Bæta þarf söltun og vetrarþjónustu.

Svar Vegagerðarinnar: Grindavíkurvegur er í þjónustuflokki 1. Vegagerðinni er kunnugt um að mörg óhöpp á Grindavíkurvegi verða þegar hálka eða ísing er á veginum. Sérstaklega verður fylgst með að þjónustuaðilar bregðist við tímanlega þegar slíkt ástand er væntanlegt.

 

Myndir af ástandi Grindavíkurvegar á c.a. 5km kafla. Otti Sigmarsson tók myndirnar:

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s