Menningarvikan formlega sett – ávarp formanns bæjarráðs

mennóÍ dag var menningarvika Grindavíkur sett í áttunda sinn við hátíðlega athöfn í kirkjunni. Frábær tónlistaratriði stóðu upp úr og ljóst að við eigum gríðarlega efnilegt tónlistarfólk hér við Tónlistarskóla Grindavíkur. Lokaatriði hátíðarinnar var endurkoma barnakórs Grindavíkur 1977-1981 en þar var samankominn hópurinn sem söng svo eftirminnilega í Stundinni okkar hér um árið. Á meðfylgjandi mynd má sjá systkinin Eniku Máneyju og Magnús Engil flytja saman lagið Heyr mína bæn sem var dásamlega vel gert hjá þeim.

Að venju var svo ávarp fulltrúa bæjarstjórnar og sá Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs um að færa kveðju bæjarstjórnar í meðfylgjandi ávarpi:

 

Screen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AMKæru gestir, fyrir hönd bæjarstjórnar býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin á setningu menningarviku sem nú er sett í áttunda sinn með sérstakri áherslu á handverk. Menningarvikan er einn af hápunktum ársins hjá okkur Grindvíkingum og ljóst að ótrúlega margir fá að njóta hæfileika sinna á hinum ýmsum sviðum auk þess að fá að sýna afrakstur vinnu sinnar undanfarin misseri eða jafnvel ára.

Öllum má vera ljóst að menning er okkur mikilvæg og jafnvel hægt að taka svo djúpt í árinni að hreinlega segja hana lífsnauðsynlega. Menning er í raun allt í kringum okkur. Það skiptir því máli að vel sé haldið utan um menningu og listir. Að því sögðu langar mig að segja sögu úr síðari heimstyrjöldinni þegar hún var í algleymingi. Bretar þurftu að lifa við matarskömmtun og stöðuga ógn af sprengjuárásum. Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra var spurður út í það hvers vegna ríkisstjórn hans héldi áfram að styrkja listir og menningu. Hann játaði að vissulega gæti peningunum verið varið í byssuklúlur, sprengjur eða aðra hluti sem menn nota til að drepa hvorn annan. En síðan sagði hann: Allt eru þetta hlutir sem við berjumst með. En ef við höfum ekki listir eða menningu, fyrir hverju erum við þá að berjast?

Þetta er kjarni málsins. Menning er sú hefð og það umhverfi sem við höfum skapað okkur. Órjúfanlegur þáttur í nærandi og gefandi tilveru sem við eðlilega sækjumst eftir sem mannverur og sem félagsverur.

Það var því ótrúlega gaman að sjá hversu ánægðir íbúar Grindavíkur eru með menningarmálin í sveitarfélaginu. Yfir 70% þeirra sem voru spurðir í þjónustukönnun Gallups meðal 19. stærstu sveitarfélaga landsins, eru ánægðir eða mjög ánægðir með það hvernig við sinnum menningarmálum. Grindavík hefur vaxið mikið hvað varðar menningarþáttinn undanfarin ár og ber þar auðvitað hæst að nefna þessa menningarviku sem nú gengur í garð auk fjölskylduhátíðar okkar Sjóarans síkáta. Af þeim 19 stærstu sveitarfélögum sem tóku þátt í þessari könnun þá er Grindavík í 3ja sæti hvað varðar menningarmál og verður það að teljast ansi gott.

Ég hef sagt það áður og segi það enn. Við erum öll skaparar þeirra menningu sem Grindavík hefur að geyma. Börn, fullorðnir og eldri borgarar. Og hún er auðvitað ekki bara bundin við menningarvikuna eða sjómannahelgina. Það erum við sem sækjum viðburði, bjóðum upp á sýningar á afrakstrinum, mætum með hjálparhönd sem sjálfboðaliðar í félags- og tómstundastarf eða leggjum okkur fram við að halda utan um allt íþróttastarf.  Það verður seint fullþakkað allt það frábæra starf sem unnið hefur verið í sjálfboðastarfi hér í Grindavík.

Að lokum langar mig að óska Helgu Kristjánsdóttur, bæjarlistamanni Grindavíkur sem nú er útnefndur í annað sinn, hjartanlega til hamingju með nafnbótina. Mig langar að þakka henni fyrir sitt framlag til listar og menningar í gegnum árin. Þá vil ég fyrir hönd bæjarstjórnar þakka Þorsteini Gunnarssyni, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs ásamt frístunda- og menningarnefnd fyrir gott skipulag og undirbúning menningarvikunnar. Og aðrir Grindvíkingar, ungir sem aldnir, takk fyrir að gera hjarta og menningu Grindavíkur að því sem það er í dag.

Góða skemmtun!

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s