Kristín María & Vilhjálmur leiða Lista Grindvíkinga

Kristín María Birgisdóttir, kennari og formaður bæjarráðs Grindavíkur mun leiða Lista Grindvíkinga í komandi sveitarstjórnarkosninum. Þetta er í þriðja  sinn sem Kristín María leiðir listann en hann bauð fyrst fram árið 2010. Listi Grindvíkinga er óháð framboð sem leggur áherslu á samvinnu þvert á flokka og að styðja við góð mál sama hvaðan þau koma.
***
Kristín María er 38 ára stjórnmálafræðingur með kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla. Hún er með B.A próf í stjórnmálafræði og hefur einnig menntað sig í mannauðsstjórnun. Ásamt því að vera í bæjarstjórn situr hún í stjórn Samtaka orkusveitarfélaga, er í varastjórn Lánastjóðs sveitarfélaga og stjórnarformaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum
*** 
 Kristín María er í sambúð með Páli Árna Péturssyni, sjómanni og eiga þau soninn Theodór Arnberg (2018). Fyrir á Kristín María soninn Þórð Halldór (2014).
***
Í öðru sæti listans er Vilhjálmur Ragnar Kristjánsson. Vilhjálmur er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Hann starfar sem tryggingaráðgjafi hjá VÍS í Reykjanesbæ.
***
Vilhjálmur hefur starfað mikið í kringum félagsstörf bæði hjá fyrri atvinnurekendum sem og tengt íþróttum. Hann er í sambúð með Erlu Rut Jónsdóttur, kennara við Grunnskólann í Grindavík og eiga þau þrjú börn, Hreiðar Leó (2010) Maren Sif (2012) og Elvar Frey (2015).
***
Listi Grindvíkinga mun í komandi kosningabaráttu m.a. leggja áherslu á áframhaldandi ábyrga fjármálastjórnun, dagvistunar- og leikskólamál, þjónustu við eldri borgara auk húsnæðismála.
***
Þá mun listinn leggja ríka áherslu á samskipti við stjórnvöld og þrýsta á að m.a. fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði sem fyrst, Grindavíkurvegi verði úthlutað því fjármagni sem þarf til að klára aðskilnað akstursstefna og að heilbrigðis- og öryggisþjónusta verði efld, m.a. með fjölgun sjúkrabíla í bæjarfélaginu.
***
Framboðslisti Lista Grindvíkinga 2018:

1. Kristín María Birgisdóttir – kennari og formaður bæjarráðs
2. Vilhjálmur Ragnar Kristjánsson – tryggingaráðgjafi og viðskiptafræðingur
3. Aníta Björk Sveinsdóttir – sjúkraliði og nemi í iðjuþjálfun
4. Gunnar Baldursson – sjúkraflutningamaður
5. Þórunn Alda Gylfadóttir – kennsluráðgjafi
6. Guðjón Magnússon – pípulagningamaður og starfsmaður Securitas
7. Sigríður Gunnarsdóttir – kennari
8. Steinberg Reynisson – iðnaðarmaður
9. Angela Björg Steingrímsdóttir – framhaldsskólanemi
10. Þórir Sigfússon – bókari
11. Steinnunn Gestsdóttir – starfsmaður í dagdvöl aldraðra í Víðihlíð
12. Steingrímur Kjartansson  – sjómaður
13. Guðveig Sigurðardóttir – húsmóðir og eldri borgari
14. Lovísa Larsen – framhaldsskólakennari

Fljótlega munu birtast ítarlegri upplýsingar um aðra frambjóðendur Lista Grindvíkinga

Advertisements

Þriðji málefnafundurinn á Salthúsinu

Þriðji og jafnframt síðasti málefnafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á Salthúsinu, efri hæð, miðvikudaginn 28. mars kl.17:00. Þeir málaflokkar sem til umræðu verða eru frístunda- og menningarmál, skipulagsmál og hafnarmál.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Málefnastarf og bæjarmálafundur

Listi Grindvíkinga heldur áfram með málefnavinnuna, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, í dag kl.17:00 á efri hæð Salthússins.Á þessum málefnafundi verða tekin fyrir umhverfis- og ferðamál auk skipulagsmála.  Í kjölfarið verður svo mánaðarlegur bæjarmálafundur kl.18:00 ATH breytta tímasetningu. Á dagskrá bæjarmálafundarins verður að venju málefni bæjarstjórnarfundarins á morgun.

 

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Viltu hafa áhrif?

Hefurðu skoðun á hvað megi bæta hjá Grindavíkurbæ? Langar þig að koma skoðun þinni á framfæri?

Listi Grindvíkinga byrjar málefnastarf sitt fyrir komandi sveitastjórnarkosningar á mánudaginn kemur 19.mars á efri hæð Salthússins kl. 17:00

Þeir málefnaflokkar sem til umræðu verða eru: Fræðslu- og félagsmál, umhverfis- og ferðamál, skipulagsmál og frístunda- og menningarmál.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

 

Ný stjórn G-listans

Á aðalfundi Lista Grindvíkinga sem haldinn var á dögunum var ný stjórn skipuð.

Formaður

Gunnar Baldursson

Varaformaður

Kristín María Birgisdóttir

Gjaldkeri

Þórir Sigfússon

Ritari

Þórunn Aldra Gylfadóttir

Meðstjórnandi

Aníta Björk Sveinsdóttir

Daggæsla barna í heimahúsum – staða og framtíðarsýn

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Járngerðar. 

Mikil umræða hefur verið um daggæslumál í sveitarfélaginu undanfarin misseri. Nánar tiltekið um daggæslu barna í heimahúsum, en þeirri starfsemi er ætlað að brúa bilið frá lokum fæðingarorlofs þar til börn komast inn í leikskóla. Verulegur skortur hefur verið á daggæsluplássum í heimahúsum undanfarin ár og fyrir liggur að þeim muni að óbreyttu fækka enn frekar frá næsta hausti.

Ætla má að á hverjum tíma séu foreldrar 40 – 60 barna í þörf fyrir daggæslu í heima- húsi. Mikill meirihluti nýbakaðra foreldra í dag eru báðir á vinnumarkaði fram að fæðingu barns og nýta svo rétt sinn til fæðingarorlofs í kjölfarið, þ.e. í 9 mánuði. Þrátt fyrir að báðir foreldrar hafi fullan hug á því að snúa aftur í sín störf að loknu orlofi, liggur fyrir að það er ekki hægt við núverandi aðstæður þar sem ekki eru laus daggæslupláss í sveitarfélaginu. Í þeim tilvikum þarf annað foreldrið að segja starfi sínu lausu og hverfa af vinnumarkaði tímabundið, jafnvel allt þar til barn kemst inn í leikskóla sem ekki er tryggt við 18 mánaða aldur, þar sem einungis þau börn sem verða fullra 18 mánaða við upphaf leikskóla að hausti eiga tryggt pláss. Fyrir liggur að í miklum meirihluta tilvika fellur það í hlut móður að hverfa frá vinnumarkaði og því er hér öðrum þræði um jafnréttismál að ræða.

Hér að framan hafa verið raktar aðstæður þar sem báðir foreldrar eru til staðar í fjölskyldueiningu og þarf því engum að dyljast hversu aðstæður einstæðra foreldra eru erfiðar, þar sem einungis er sex mánaða fæðingarorlofi til að dreifa. Í þeim tilvikum hefur foreldrið ekki tekjumöguleika á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi fái það ekki daggæslupláss og líkur á félagslegum erfiðleikum og félagslegri einangrun aukast til muna. Í þeim aðstæðum er oft eini kostur- inn að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá sveitarfélaginu.

Daggæsla barna í heimahúsum er sjálf- stæður atvinnurekstur en leyfisskyld af hálfu sveitarfélaga og eftir atvikum heilbrigðis- eftirlits. Um starfsemina gilda ákvæði reglu-

gerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum en í reglugerðinni er m.a. kveðið á um heimild sveitastjórna til að greiða niður kostnað við daggæslu. Um árabil fólst fjárhagslegur stuðningur Grindavíkurbæjar við daggæslu barna í heimahúsum eingöngu í niðurgreiðslum daggæslugjalda en undan- farin ár hefur þessi stuðningur aukist verulega og er nú mjög víðtækur. Bæjarstjórn Grinda- víkur samþykkti á fundi sínum hinn 27. febrúar s.l. reglur um daggæslu barna í heimahúsum en í þeim er kveðið á um ábyrgð og skyldur dagforeldra, ábyrgð og skyldur foreldra, umsjón og eftirlit sveitarfélagsins og fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemina.

Fjárhagslegur stuðningur sveitarfélagsins við starfsemi dagforeldra er nú eftirfarandi:

a) Niðurgreiðsla vistunargjalda eru kr. 55.000,- vegna hjóna/sambúðaraðila og kr. 65.000 vegna einstæðra foreldra miðað við 8 klst. vistun.

b) Eftir að barna nær fullra 18 mánaða aldri skal koma til aukin niðurgreiðsla þannig að foreldrar greiði sama gjald og í leikskóla.

c) Niðurgreiðsla á námskeiðsgjöldum fyrir nýja dag foreldra eða dag foreldra með bráðabirgðaleyfi skal nema 75%.

d) Stofnstyrkur vegna nýrra daggæsluleyfa skal nema kr. 100.000,-. Styrkurinn skal greiddur út við næstu mánaðamót eftir að starfsemi hefst. Skilyrði þess að greiddur verði stofnstyrkur er að dagforeldri sé með heimilaðan hámarksfjölda barna í daggæslu.

e) Veita skal árlegan búnaðarstyrk að fjárhæð kr. 50.000,-. Styrkurinn greiðist út 1. september ár hvert að því gefnu að dagforeldri hafa starfað samfellt í a.m.k. átta mánuði með heimilaðan hámarksfjölda barna í gæslu.

f) Álag vegna gæslu eigin barna skal vera 50% ofan á almenna niðurgreiðslu. Skilyrði þess

að greitt verði álag er að dagforeldri sé með heimilaðan hámarksfjölda barna í gæslu.

g) Ef dagforeldri leggur heimili sitt undir daggæslu skal greiddur húsnæðisstyrkur að fjárhæð kr. 15.000,- á hvert barn í mánuði hverjum. Skilyrði þess að greiddur verði húsnæðisstyrkur er að dag foreldri sé með heimilaðan hámarksfjölda barna í gæslu. Ekki er þó greiddur húsnæðisstyrkur með eigin barni.

Í nýsamþykktum reglum er að finna tvö nýmæli, þ.e. annars vegar varðandi stofnstyrk vegna daggæslu að fjárhæð kr. 100.000,- og hins vegar um húsnæðisstyrk að fjárhæð kr. 15.000,- á hvert barn í gæslu.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram undanfarið til að mæta þörfum foreldra barna sem ekki eiga kost á daggæslu. Lagt hefur verið til að taka upp s.k. heimgreiðslur til foreldra en það felur í sér að sveitarfélagið veiti foreldrum styrk sem nemur almennum niðurgreiðslum til dagforeldra, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. reglnanna. Fylgjendur tillögunnar benda á að bæjaryfirvöld hafi nú þegar samþykkt að greiða niður daggæslu vegna barna í þessari stöðu og því eigi einu að gilda hvort greiðslurnar renni beint til foreldra. Jafnframt er bent á að foreldrar geti fengið leyfi til daggæslu hjá sveitarfélaginu til að sinna eigin barni og þannig fengið niðurgreiðsluna. Þeir sem eru ósammála tillögunni benda á að þessi leið leysi á engan hátt daggæsluvandann heldur jafnvel viðhaldi honum. Þá hefur verið bent á að slík meðferð á tekjum sveitarfélagsins í þágu fámenns hóps íbúa sé hæpin út frá jafnræðissjónarmiðum. Tillagan hlaut hljómgrunn í félagsmálanefnd Grindavíkur en var synjað að svo stöddu í bæjarráði um miðjan febrúar.

Undanfarin ár hefur Grindavíkurbær leigt út húsnæði til dagforeldra sem starfa saman að daggæslu með allt að 10 börn. Sveitarfélagið reiknar dagforeldrum leigu samkvæmt viðteknum viðmiðum um rekstur fasteigna en að öðru leyti er rekstur daggæslunnar á ábyrgð dagforeldra. Gerðir hafa verið slíkir samningar gagnvart tveimur pörum dagforeldra, annars vegar um húsnæði við gamla gæsluvöllinn við Hraunbraut og hins vegar um útistofu við Grunnskóla Grindavíkur við Ásabraut. Þessi leið hefur gefist vel. Húsnæði í eigu sveitarfélagsins var í boði á þeim tíma og leigukjör viðráðanleg. Nú er staðan hins vegar þannig að húsnæðið við Hraunbraut er ónýtt, bráðabirgðaaðstaða í þjónustuhúnæði tjaldsvæðiðsins verður ekki lengur fyrir hendi frá og með maí nk. og tímaspursmál er hvenær grunnskólinn gerir tilkall til þess að fá útistofur við skólann aftur í notkun vegna fjölgunar nemenda.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagisins vegna yfirstandandi árs er gert ráð fyrir kr. 45.000.000 í hönnun og byggingu húsnæðis undir daggæslu fyrir allt að 20 börn. Vinna við hönnun er hafin og horft hefur verið til tveggja kosta varðandi staðsetningu húsnæðisins, annars vegar við Hraunbraut og hins vegar við Hópsskóla. Sú spurning hefur vaknað í þessu sambandi hvort þessi fjárfreka leið sé í raun til þess fallin að leysa þann vanda sem foreldrar barna á daggæslualdri standa frammi fyrir? Munu einhverjir aðilar vera reiðubúnir að gera samning við sveitarfélagið um leigu á húsnæðinu á eðlilegum leigukjörum þegar þar að kemur? Mun sú krafa koma upp eftir að húsnæðið rís, að sveitarfélagið sjálft reki daggæslu í húsnæðinu með tilheyrandi starfsmanna- og rekstrarkostnaði? Er þá ekki nær að stíga skrefið til fulls og byggja nýjan leikskóla með ungabarnadeild, þ.e. taka inn börn frá 12 mánaða aldri?

Á fundi bæjarráðs um miðjan febrúar sl. þar sem heimgreiðslum foreldra var synjað að svo stöddu bókaði bæjarráð: „Bæjarráð hafnar erindinu að svo stöddu en mun taka þetta inn í heildarumræðu um dagvistunarmál. Nú er vinna í gangi að kanna húsnæðismál fyrir dagvistun og mun liggja fyrir niðurstaða í því á næstu mánuðum. Ljóst er að vandi vegna skorts á dagforeldrum er ekki eingöngu vandi sveitarfélaga heldur þarf ríkið að koma þar að málum, t.d. með því að lengja fæðingarorlof.“

Oft ratast kjöftugum satt á munn. Hér bendir bæjarráð á hina augljósu staðreynd að vandinn vegna skorts á dagforeldrum er ekki eingöngu sveitarfélaga að leysa heldur þarf ríkið einnig að koma þar að málum. Í því sambandi er rétt að halda því til haga að ríkisvaldið er vel meðvitað um stöðuna og hefur stefnan verið mörkuð að þessu leyti.

Í mars 2016 gaf Velferðarráðuneytið út framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum þar

Húsnæði Krílakots sem hefur verið úrskurðað ónýtt

sem m.a. er lagt til að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði. Einnig er lagt til að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem leiti leiða svo unnt sé að bjóða öllum börnum dvöl í leikskóla við 12 mánaða aldur. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016 – 2019 sem samþykkt var á Alþingi 7. september 2016 kemur m.a. fram að megintillögur úr framangreindri framtíðarstefnu skuli nýttar sem leiðarljós við endurreisn fæðingarorlofskerfisins og að unnið verði að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólavistar. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar kveður við sama tón.

Samkvæmt framangreindu er því ekki óvarlegt að ætla að landslagið í þessum málum verði verulega breytt innan fárra ára. Það leysir hins vegar ekki þann vanda sem nú og í bráð steðjar að foreldrum barna í þörf fyrir gæslu.

Eins og áður hefur komið fram er daggæsla barna í heimahúsi sjálfstæður rekstur, háður leyfi sveitarfélaga og eftir atvikum heilbrigðisnefndar. Skyldur sveitarfélaga eru afar fábrotnar að öðru leyti gagnvart starfseminni og felast einkum í umsjónar- og eftirlitshlutverki sveitarfélagsins. Reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum veitir sveitarfélögum heimild til að greiða niður kostnað vegna daggæslunnar og nýtir Grindavíkurbær þá heimild með margvíslegum fjárhagslegum stuðningi við starfsemina eins og fram hefur komið.

Tekjumöguleikar dagforeldra eru töluverðir, enda gjaldskrá þeirra frjáls. Fjárhagslegur stuðningur sveitarfélagsins með hverju barni, þ.e. almenn niðurgreiðsla og húsnæðisstyrkur nemur kr. 70.000 – 80.000 á mánuði eftir því hvort um barn einstæðra foreldra eða hjóna/sambúðarfólks er að ræða og ræður gjaldskráin svo þeim heildartekjum sem dagforeldrið aflar með hverju barni. Ákvörðun gjaldskrár lýtur almennum markaðslögmálum en sveitarfélagið tryggir að foreldrar barna í daggæslu greiði ekki meira en sem nemur leikskólagjöldum frá fullra 18 mánaða aldri.

Samkvæmt framangreindu ættu rekstrartekjur dagforeldra hæglega að geta numið frá kr. 625.000 – 750.000 í mánuði hverjum miðað við fimm börn í gæslu. Þá er vert að minna á að tveir dagforeldrar geta starfað saman í heimahúsi annars þeirra að uppfylltum m.a. kröfum um lágmarks leikrými fyrir hvert barn (3 m2). Ef svo ber undir þá fær þó einungis það dagforeldri sem leggur til heimili sitt undir starfsemina húsnæðisstyrkinn.

Skortur á daggæslu fyrir börn í heimahúsi hefur verið tilfinnanlegur í sveitarfélaginu undanfarin ár. Fyrirséð er að innan fárra ára verði þörf á daggæslu barna í lágmarki enda hafi fæðingarorlof verið lengt og sveitarfélög almennt að taka inn börn í leikskóla frá 12 mánaða aldri. Þangað til sá tími rennur upp er vandinn raunhæfur og sitt sýnist hverjum um til hvaða lausna skuli gripið. Á heildina litið geta flestir verið sammála um að farsælasta lausnin sé sú að aðilar sjái tækifæri í því að sinna daggæslu barna í heimahúsum, með víðtækum fjárhagslegum stuðningi sveitarfélagsins og óheftri atvinnuþáttöku þeirra foreldra sem það kjósa.

Nökkvi Már Jónsson

Sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs

Vertu með okkur!

Það styttist í næstu sveitarstjórnarkosningar en þær fara fram í lok maí næstkomandi. Listi Grindvíkinga bauð fyrst fram árið 2010 og svo aftur árið 2014. Verkefnið hefur verið skemmtilegt, krefjandi og félagsskapurinn frábær. Við vildum með framboði okkar bjóða fólki aðkomu að sveitarstjórnarmálum án þess að vera bundið ákveðnum stjórnmálaflokki, fólk má í rauninni vera í hvaða flokki sem það vill. Við hittumst mánaðarlega fyrir hvern bæjarstjórnarfund og eru allir velkomnir á þá fundi. Þeir eru alltaf auglýstir á vefsíðu G-listans auk vefsíðu Grindavíkurbæjar.

Listi Grindvíkinga stefnir að sjálfsögðu aftur að því að bjóða fram lista og málefni í vor. Ef þú hefur áhuga á að vera með endilega komdu við í kaffi eða sendu okkur línu. Finna má netföng nefndarfólks fyrir neðan.

Nefndarfólk G-listans

Við vinnum fyrir ykkur og hvetjum fólk til að senda okkur línu ef það hefur spurningar eða athugasemdir um það sem er í gangi í hverjum málaflokki.

Bæjarráð og bæjarstjórn

Kristín María Birgisdóttir

– formaður

kristinmaria@grindavik.is

Hafnarstjórn

Pétur Benediktsson peturben@vgsmidja.is

Frístunda- og menningarnefnd

Þórunn Alda Gylfadóttir

– formaður

thorunn@grindavik.is

Aníta Björk Sveinsdóttir anitasveins@gmail.com

Umhverfis- og ferðamálanefnd

Gunnar Baldursson – formaður lindberg28@simnet.is

Aníta Björk Sveinsdóttir anitasveins@gmail.com

Fræðslunefnd

Ómar Sævarsson omarsaevarsson@gmail.com

Skipulagsnefnd

Þórir Sigfússon thorirs@simnet.is

Félagsmálanefnd

Laufey Birgisdóttir

– formaður (óháð)

Gunnar Baldursson lindberg28@simnet.is

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja

Þórir Sigfússon thorirs@simnet.is

Aðalfundur okkar verður haldinn á efri hæð Salthússins næstkomandi miðvikudag, 7. mars kl. 20:00. Við hvetjum áhugasama til að líta við og hitta G-lista fólk.

Aðalfundur 7.mars

Listi Grindvíkinga heldur aðalfund miðvikudaginn 7.mars  kl. 20:00 á efri hæð Salthússins.

Dagskrá fundarins:  
•    Venjuleg aðalfundarstörf
•    Önnur mál

Allir velkomnir!

Súpufundur í kvöld kl. 19:30

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn í kvöld á Salhúsinu kl. 19:30. Á dagskrá eru málefni bæjarstjórnarfundarins á morgun auk þess sem komandi sveitarstjórnakosningar verða einnig til umræðu. Allir velkomnir. Súpa, brauð og kaffi í boði.

Listi Grindvíkinga

Grindvíkingar ánægðir með þjónustu sveitarfélagins

Nýlega birti Gallup niðurstöður sínar úr árlegri þjónustukönnun meðal 19 stærstu sveitarfélaganna. Óhætt er að segja að Grindavíkurbær sé að koma vel út úr þeirri könnun en í langflestum þáttum er ánægja íbúanna yfir landsmeðaltali í flestum þáttum. Það kom svo sem ekki á óvart að ánægja hefur aðeins dregist saman milli ára þegar kemur að þjónustu við barnafjölskyldur og merkjum við að þar spili dagvistunar- og leikskólamálin stærstan þáttinn. Niðutstöður þessarar könnunar ásamt þeim opnu svörum sem íbúum gafst kostur á að svara er dýrmætur efniviður þeirra flokka sem hyggjast bjóða fram í vor. Svör íbúa við þessari könnun skipta miklu máli því öðruvísi er erfitt að leggja mat á það hvernig Grindavíkurbær er að standa sig gagnvart íbúum bæjarins. Ber því að þakka þeim sem gáfu sér tíma til að svara.

Könnunin var framkvæmd í nóvember/desember 2017.

Hér  má sjá hvernig þjónustuþættirnir eru að koma út hjá Grindavíkurbæ en myndirnar tala sínu máli í glærum Gallup. Þjónustukönnun 2017

Grindavík í samanburði við önnur sveitarfélög:

Súpufundur G-listans í kvöld kl.19:30

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á efri hæð Salthússins í kvöld klukkan 19:30 – ATH breytta tímasetningu! Til umræðu verða málefni bæjarstjórnarfundarins sem haldinn er á morgun, þriðjudaginn 30.janúar kl.17:00.

Í boði verður súpa og brauð, heitt verður á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Allt reynt til að fjölga dagforeldrum

Bæjarstjórn í samvinnu við fræðslusvið hefur í þó nokkurn tíma reynt að efla þjónustu dagforeldra. Mikil eftirspurn er eftir þjónustu þeirra í Grindavík og er það mat okkar að daggæsla áður en leikskólaganga hefst sé gríðarlega mikilvæg svo foreldrar geti snúið aftur á vinnumarkaðinn við lok fæðingarorlofs.

„Þó er ljóst að á meðan fæðingarorlofið er ekki lengra en raun
ber vitni þá munu sveitarfélög og íbúar þess eiga í vandræðum
með þjónustuna ef ekki fást dagforeldrar til að sinna henni.“

Þó er ljóst að á meðan fæðingarorlofið er ekki lengra en raun ber vitni þá munu sveitarfélög og íbúar þess eiga í vandræðum með þjónustuna ef ekki fást dagforeldrar til að sinna henni. Einn liður í að létta undir með foreldrum barna sem eru hjá dagforeldum, og komast ekki strax á leikskóla, er að niðurgreiða gjaldið svo það sé til jafns við leikskólagjöld. Góð hugmynd sem kom frá minnihlutanum og meirihlutinn samþykkti í upphafi kjörtímabilsins.

Grindavíkurbær styður á margvíslegan hátt við starfsemi dagforeldra í sveitarfélaginu:
• Með niðurgreiðslum gjalda (kr. 55.000,- fyrir hjón og kr. 65.000,- fyrir einstæða m.v. 8 klst. vistun)
• Með auknum niðurgreiðslum gjalda vegna barna sem náð hafa 18 mánaða aldri
• Með styrkjum til að sækja námskeið til verðandi dagforeldra og dagforeldra með bráðabirgðaleyfi
• Með árlegum búnaðarstyrk til dagforeldra
• Með því að leggja til húsnæði til útleigu fyrir starfsemi dagforeldra

Þrátt fyrir framangreindan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi dagforeldra hefur ekki ákjósanlegur fjöldi daggæslurýma náðst í sveitarfélaginu. Bæjaryfirvöld hafa vilja til að styðja enn frekar við starfsemina með því að veita húsnæðisstyrk til þeirra sem sinna daggæslu í heimahúsi. Styrkurinn myndi nema kr. 15.000,- á hvert barn í daggæslu eða kr. 75.000,- m.v. fimm börn í daggæslu hverju sinni. Ef tveir aðilar myndu sameinast um daggæslu í heimahúsi myndi styrkurinn renna til þess aðila sem leggur heimili sitt til rekstursins.

Það er einlæg von okkar að sá vandi sem blasir við vegna skorts á dagforeldrum til starfa leysist innan tíðar. Bæjaryfirvöld eru sammála um að reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þá aðila sem í hyggju hafa á að sinna þjónustunni. Dæmin hér að ofan sýna að viljinn er ríkur.

Pistillinn birtist fyrst í Bæjarmálatíðindum Lista Grindvíkinga sem komu út fyrir jól og lesa má í heild sinni hér. 

Áfram barátta fyrir bættum Grindavíkurvegi

Fulltrúar bæjarstjórnar, bæjarstjóri og aðilar úr Samráðshópi um bættan Grindavíkurveg hafa undanfarna mánuði þrýst á umbætur á Grindavíkurvegi. Eftir að hafa í mörg ár átt samtal við Vegagerðina um öryggi vegarins var farið á fund með þeim í mars á þessu ári. Þar fórum við yfir málið og lýstum yfir áhyggjum okkar af ástandi vegarins og að
bið eftir umbótum væru komnar að þolmörkum.

Fundurinn var ágætur og í kjölfarið var unnin svokölluð öryggisúttekt á umhverfi vegarins. Mikið er um útaf akstur
og því var reynt að gera umhverfi vegarins þannig að ekki tækju við stór grjót eða mikið hraun þegar bíll færi útaf. Möl var auk þess sett í vegkanta til að bæta grip og þannig aðstoða ökumenn við að koma sér aftur upp á veg, séu þeir að missa bílinn útaf.

„Allir vilja beita sér fyrir því að bæta veginn, enda hefur
úttekt sýnt að hann er bæði einn áhættumesti og slysamesti
vegur landsins. “

Þingmenn sammála um nauðsyn þess að setja veginn á samgönguáætlun.

Í kjölfar fundarins í mars með Vegagerðinni áttum við fund með tveimur ráðherrum, annars vegar Jóni Gunnarssyni, þáverandi samgöngumálaráðherra og hins vegar Benedikt Jóhannessyni þáverandi fjármálaráðherra. Þeir fundir voru að mörgu leyti ágætir en engu lofað um að fá veginn á áætlun. Eins og við vitum leystist sú ríkisstjórn upp og aftur var kosið.

„Það er ljóst að til að fá veginn á áætlun þá þurfa þingmenn
okkar að vera sammála um að það sé forgangsmál að setja
Grindavíkurveg inn á samgönguáætlun.“

Í aðdraganda kosniganna sendi undirrituð formönnum allra flokka auk efstu frambjóðenda í Suðurkjördæmi fyrirspurn um veginn. Hvort þeir teldu veginn öruggan og ástandið ásættanlegt. Ef ekki, hvort þeir hyggðust beita sér fyrir því að koma honum á samgönguáætlun. Svörin sem bárust til baka voru einróma: allir vilja beita sér fyrir því að bæta veginn, enda hefur úttekt sýnt að hann er bæði einn áhættumesti og slysamesti vegur landsins. Í lok nóvember var aftur farið á fund Vegagerðarinnar. Tilgangurinn var að fá að hefja undirbúning að hönnun og skipulagi á „2+1“ vegi með aðskildum akstursstefnum, mögulega að hluta til, til að byrja með. Þetta vildum við athuga til að flýta fyrir framkvæmdum þegar vegurinn verður vonandi settur á áætlun. Vegagerðin tók jákvætt í erindið og verður farið í að vinna þá forvinnu sem þarf til að gera undirbúning og skipulag klárt.

Þarf að vera forgangsmál allra þingmanna kjördæmisins. 

Næstu skref okkar eru að fylgja málinu eftir innan ráðuneytanna og þá fyrst og fremst samgönguráðuneytisins en sá ráðherra sem tók við því embætti er einmitt úr okkar kjördæmi. Við höfum þegar óskað eftir fundi bæði með ráðherra samgöngumála og ráðherra fjármála. Á fundi með þingmönnum kjördæmisins um miðjan nóvember áttum við gott spjall við þá sem komust til fundarins. Það er ljóst að til að fá veginn á áætlun þá þurfa þingmenn
okkar að vera sammála um að það sé forgangsmál að setja Grindavíkurveg inn á samgönguáætlun.

Vegferðin heldur því áfram og við þurfum áfram að þrýsta á yfirvöld. Sá þrýstingur mun ekki hætta fyrr en við fáum veginn á áætlun og að hún verði að fullu fjármögnuð. Bæjaryfirvöld hafa fengið fund með samgönguráðherra 20.des
og verður eftir fremsta megni reynt að koma veginum inn á áætlun svo hefja megi umbætur sem fyrst.

Uppfært: Eftir að pistillinn fór í loftið á netinu í desember afgreiddi ríkisstjórnin viðbót við fjárlög og mun Grindavíkurvegur fá 200 milljónir til lagfæringa á næsta ári. Það er markmið okkar bæði í bæjarstjórn og samráðshópi um bættari veg að ná nægu fjármagni til að hefja megi þá mikilvægu framkvæmd að breikka veginn og aðskilja akstursstefnur. 200 milljónir eru ágætis upphaf til að hefja undirbúning og hönnun en morgunljóst er að meira fjármagn þarf að koma til svo fara megi í nauðsynlegar endurbætur að fullu.

 

Kristín María Birgisdóttir
Formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar og
fulltrúi í samráðshópi um bættan Grindavíkurveg.

 

Pistillinn birtist fyrst í vefútgáfu Bæjarmálatíðinda Lista Grindvíkinga sem lesa má í heild sinni hér.

Íþrótta- og menningarstarf öflugt í Grindavík

Glæsilegt íþróttaár er að baki og lauk því með uppskeruhátíð íþróttafólks sem haldin var í Gjánni í dag. Þar voru valin bæði íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur. Mig langar fyrir hönd frístunda- og menningarnefndar að óska öllu því frábæra íþróttafólki sem var heiðrað og fékk viðurkenningar í dag til hamingju með sinn árangur. Sérstakar hamingjuóskir fá Ólafur Ólafsson, körfuknattleiksmaður, íþróttamaður Grindavíkur 2017 og Dröfn Einarsdóttir, knattspyrnukona, íþróttakona Grindavíkur 2017. 

Við erum þekkt fyrir okkar mikla íþróttastarf hér í bænum og vekur það athygli víðsvegar um landið hvernig Grindavíkurbær kemur að starfinu. Eitt hófstillt gjald og börn og unglingar fá að æfa þær íþróttir sem hugur þeirra leggst til. Á nýju ári hefjast framkvæmdir við nýtt og stærra íþróttahús sem löngu er orðið tímabært þar sem starfssemi þess hefur aukist ár frá ári. Verður spennandi að fylgjast með komandi kynslóð við æfingar og keppni í nýrri aðstöðu.

Það vakti athygli mína að á þessu ári eru Grindvíkingar búnir að eiga unglinga sem hafa verið valin í landsliðin til æfinga og keppni bæði hérlendis og erlendis og megum við þakka það þessu mikla starfi sem á undan hefur verið unnið. Það er mikil og góð vinna lögð í íþróttastarfið og skilar það sér í góðu íþróttafólki.

„Við megum vera stolt af þessum ungmennum sem starfa í ungmennaráði því þau eru rödd unga fólksins
sem koma til með að taka
við af okkur“

Skák og hjólreiðar að sækja í sig veðrið
Við bjóðum upp á fjölbreytta íþróttastarfssemi og hafa nýjar greinar verið að sækja í sig veðrið, eins og skákin og hjólreiðarnar. Skák hefur verið kennd undanfarin ár í grunnskólanum og hafa nemendur verið duglegir að sækja keppnir á þeirra vegum og unnið til verðlauna. Skákin er einnig kennd í Gjánni einu sinni í viku og hafa eldri borgarar verið að koma og keppa við yngri kynslóðina sem er mjög jákvætt að brúa bil kynslóðanna með þessum hætti. Hjólreiðar hafa að undanförnu vakið athygli hér í bæ, Hjólakraftur er val í grunnskólanum og hjóla nemendur með þeim tvisvar í viku og taka svo þátt í WOW Cyclothon keppninni þar sem hringvegurinn er hjólaður. Við áttum einnig tvö lið í WOW Cyclothon hjóleiðakeppninni núna í sumar, Grindavík kk og Löðrandi sveittar mæður tóku þátt og stóðu sig mjög vel í keppninni.

Minja- og sögufélagið með gott starf
Það má með sanni segja að við séu einnig að sækja í okkur veðrið í menningarmálum, menningarvikan okkar er orðin stór hluti af þeim viðburðum sem eru árlega hér í bæ. Undirbúningar fyrir næstu menningarviku hefst um leið og þeirri síðustu lýkur og eru áherslurnar misjafnar á hverju ári sem gerir þennan viðburð svo skemmtilegan. Við leitum fanga til Grindvíkinga og hafa þeir svo sannarlega lagt sitt að mörkum til þessarar hátíðar með listviðburðum á borð við listsýningar, upplestur og frásagnir einstaklinga sem hafa fengið okkur til að hlæja. Opin hús hjá Handverksfélaginu Greip og Minja og sögufélagi Grindavíkur sem hafa vakið athygli á því góða starfi sem þar er unnið af fólki sem hefur áhuga á því sem það er að gera og er alltaf gaman að koma til þeirra og fylgjast með listsköpun og varðveislu á menningarminjum.

Megum vera stolt af ungmennaráðinu
Við eigum hér ungmennaráð sem hafa komið með góðar tillögur til að efla hér bæði íþróttalíf, menningu og ungmennagarð sem er til sóma. Við megum vera stolt af þessum ungmennum sem starfa í ungmennaráði því þau eru rödd unga fólksins sem koma til með að taka við af okkur. Sjómannagarðurinn hefur fengið nýja ásýnd og er áætlað á næstu árum að halda áfram vinnu við garðinn, núna er þar kominn útikennslustofa sem verður vel nýtt á komandi árum.

Á þessu má sjá að hér er unnið mikið og gott starf bæði innan íþróttahreyfingarinnar og við eflingu menningar, við getum hlakkað til komandi viðburða á næsta ári og hvet ég ykkur kæru Grindvíkingar til að sækja þessa viðburði hvort sem það eru íþróttaleikir eða menningarviðburðir.

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar.

Þórunn Alda Gylfadóttir
Formaður frístunda- og menningarnefndar

 

Pistillinn birtist fyrst í vefútgáfu Bæjarmálatíðinda G-listans sem lesa má í heild sinni hér.

Áfram góður rekstur

Það hefur verið af nógu að taka á kjörtímabilinu sem senn rennur sitt skeið. Eins og lofað var, hefur verið haldið tryggilega utan um rekstur bæjarins og aðhalds gætt eftir fremsta megni. Sitjandi bæjarstjórn mun skila af sér góðu búi fyrir þá næstu að taka við.

Eins og venja er hér í Grindavík hefur fjárhagsáætlunin verið unnin af allri bæjarstjórn. Vinnufundir hafa verið haldnir auk íbúafundar milli fyrri og seinni umræðu. Mig langar að þakka aftur samstarfsfélögum mínum í bæjarstjórn fyrir góða vinnu, ásamt sviðstjórum og starfsfólki bæjarins. Þá vil ég líka þakka þeim íbúum sem komu á íbúafundinn og létu skoðanir sínar í ljós með hvað mætti bæta. Við ræddum allar hugmyndirnar og farið var í að bregðast við öllu því sem unnt var, en vinna var þegar hafin við sumar þeirra eins og dagvistunarmálin. Það skiptir okkur máli að fá endurgjöf frá íbúum.

„Staða bæjarins er það góð að ekki þarf að taka nein lán fyrir
framkvæmdum. Grindavíkurbær skuldar lítið og hefur því
svigrúm til fjárfestinga í stað þess að greiða niður lán.“

Engin lántaka
Á kjörtímabilinu hefur verið farið í þó nokkrar fjárfestingar. Þær stærstu eru hafnarframkvæmdir við Miðgarð,undirbúningur að nýju íþróttahúsi og sex nýjar íbúðir við Víðihlíð. Ætla má að nýtt íþróttahús komist í notkun snemma á árinu 2019 og vonandi verður hægt að úthluta nýjum íbúðum við Víðihlíð strax næsta vor. Staða
bæjarins er það góð að ekki þarf að taka nein lán fyrir framkvæmdum. Grindavíkurbær skuldar lítið og hefur því svigrúm til fjárfestinga í stað þess að greiða niður lán. Framkvæmdir kalla þó á aukinn rekstur og því er mikilvægt að skila afgangi fyrir það sem koma skal. Rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrir árið 2018 eru rúmar 208 milljónir.

Stærstu fjárfestingar
Stærstu fjárfestingarnar næstu fjögur árin eru; nýtt íþróttahús, íbúðir við Víðihlíð, endurbætur á bæjarskrifstofum,
salernis- og veitingaaðstaða við Hópið, ný dagvistunarrými, frumhönnun að nýjum leikskóla og endurhönnun á Hópsskóla, útiskúr við Hópsskóla til að sinna list- og verkgreinum. Þá má vænta þess að fá ærslabelg (hoppudýnu) á árinu 2019 að beiðni Ungmennaráðs Grindavíkur. Þetta er þó aðeins brot af því sem sett hefur verið fram í eignfærða fjárfestingu en áfram verður unnið að gatna- og stígagerð, sjómannagarður verið áfram í vinnslu ásamt viðhaldsframkvæmdum á þeim byggingum sem bærinn á.

„Grindavík er eftirsóttur staður til að búa á, góð atvinnuskilyrði
og öflug grunnþjónusta spilar þar lykilhlutverk. Það er því
verkefni bæjaryfirvalda að halda lóðaframboði í samræmi við
uppbyggingu innviða.“

Innviðir og uppbygging
Í ný samþykktri fjárhagsáætlun er inni fjármagn til frekari gatnagerðar og deiliskipulags. Innan bæjarstjórnar hefur það verið til umræðu að miklu máli skipti að innviðir þoli þá fjölgun sem gert er ráð fyrir. Um það eru allir bæjarstjórn sammála. Þannig má sjá í áætlun fjármagn til að hefja undirbúning að nýjum leikskóla, auk þess sem áætlað er fjármagn í endurhönnun á Hópsskóla. Nú þegar hefur bæjarstjórn farið í mikla vinnu við að laða að dagforeldra og verður sú vinna áfram inni á borði bæjarstjórnar. Grindavík er eftirsóttur staður til að búa á, góð atvinnuskilyrði og öflug grunnþjónusta spilar þar lykilhlutverk. Það er því verkefni bæjaryfirvalda að halda lóðaframboði í samræmi við uppbyggingu innviða.

Kristín María Birgisdóttir
Formaður bæjarráðs.

 

Pistilinn birtist fyrst í netútgáfu Bæjarmálatíðinda G-listans sem kom úr fyrir jól og má lesa hér. 

 

 

Hugleiðing á aðventu

Ljósmynd: Halli Hjálmarsson

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir
himninum hefur sinn tíma. Préd.3:1

Þessi orð um að allt hafi sinn tíma er sammannleg reynsla sem við getum hvert og eitt fundið okkur í, burt séð frá því hvað við glímum við hér og nú. Aðventan hefur sínn tíma með öllum þeim litbrigðum sem hún kallar fram og við mannfólkið endurspeglum í lífi okkar daglega hvert og eitt á sinn hátt.

Það er samt eitthvað alveg sérstakt sem gerist á aðventunni. Þá er ég ekki bara að hugsa um ytri umgjörð, jólaljósin, jólagjafastússið, annríkið og stressið sem oft fylgir undirbúningi jólanna allir á þönum um borg og bý. Nei, það er þetta sérstaka andrúmsloft sem ríkir í samfélaginu á þessum árstíma og fáir eru ósnortnir af. Það er eins og skelin verði þynnri og það verður erfitt að brynja sig fyrir áreitinu úr umhverfinu. Þess vegna á gleðin, en einnig sorgin greiðan aðgang að okkur um þetta leyti en ella.

Við verðum oft meðvitaðri um okkur sjálf og stöðu okkar en einnig á umhverfi okkar og aðra í kringum okkur. Því getur þessi tími bæði verið skapandi tími og tími umbreytinga, tími til að brjótast út úr því sem hindrar okkur, brjóta
niður múra sem ef til vill hafa byggts upp innra með okkur allt frá bernsku okkar. Múra sem kannski hindra okkur í því að gefa og þiggja.

Öllu er afmörkuð stund og ef til vill er þetta stundin þín núna. Stundin sem þú ákveður að breyta einhverju í lífi þínu til góðs og gæfu. Öll erum við ólík en um leið lík að því leyti að öll erum við sköpuð til að mæta augnaráði hvers annars, gjafmildi og gæsku. Það er vegna þess að við erum gerð til að vera í samfélagi við aðra menn, í félagskap sem auðgar og blessar bæði á tímum sorgar og gleði.

Frammi fyrir boðskap jólanna,barninu í jötunni stöndum við berskjölduð. Einfaldur boðskapur sem kemur við kvikuna í okkur, gerir okkur næmari á allt sem er og allt sem við skynjum. Finnum oft fyrir smæð okkar og vanmætti en um leið getur þessi tími orðið til þessa að dýpka skilning okkar fyrir lífinu almennt og ekki síst lífi okkar sjálfra.

Kveikt er ljós við ljós,
burt er sortans svið.
Angar rós við rós,
opnast himins hlið.
Niður stjörnum stráð,
engill framhjá fer.
Drottins nægð og náð
boðin alþjóð er.
Guð er eilíf ást,
engu hjarta’ er hætt.
Ríkir eilíf ást,
sérhvert böl skal bætt.
Lofið Guð, sem gaf,
þakkið hjálp og hlíf.
Tæmt er húmsins haf,
allt er ljós og líf.
Stefán frá Hvítadal Sl.74

Guð gefi þér og fjölskyldu þinni
gleði og frið á jólum.
Séra Elínborg Gísladóttir

Hugvekjuna má finna í jólatíðindum G-listans sem birtist nýlega á netinu og má lesa hér.

Lagfæringar á Grindavíkurvegi skipta miklu máli

Viðtal við formann Ungmennaráðs Grindavíkur

Karín Óla er 17 ára Grindavíkurmær, fædd hér og uppalin. Hún er ný byrjuð aftur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja eftir að hafa verið í skóla í Færeyjum í 5 mánði. Karín hefur mikinn áhuga á félagslífi, útivist, björgunarsveitarstarfi og skemmtilegum áskorunum. Hún var meira en til í að svara nokkrum spurningum fyrir jólablað G-listans.

Hvað kveikti áhuga þinn á Ungmennaráði Grindavíkur?
Fyrir tæpum 4 árum var ákveðið að stofna ungmennaráð hér í Grindavík, ég hafði aldrei heyrt af slíkum ráðum en þótti hugmyndin spennandi. Ég var beðin um að taka þátt og ákvað að slá til. Ég hef sterkar skoðanir og finnst frábært að fá tækifæri til að hafa áhrif.

„Grindavík er æðislegur staður og hér er gott að búa.
Ég held að samheldni og samhugur sé það besta, hér þekkjast
flesir og ef eitthvað bjátar á sér maður strax að bæjarbúar taka
höndum saman.“

Hver eru ykkar helstu verkefni innan ungmennaráðsins?
Okkar helsta hlutverk er að bæta samfélagið fyrir ungt fólk í Grindavík. Við hittumst reglulega á fundum, þar skiptumst við á hugmyndum og vinnum að því að koma þeim bestu í framkvæmd. Við áttum okkur draum um
að gera ungmennagarð við Grunnskólann, garðurinn er kominn, hann var okkar hugmynd og hönnun frá grunni. Á hverju ári fara tveir fulltrúar á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, þar fáum við gott tækifæri til að sjá hvað önnur
ungmennaráð eru að gera. Við höfum háleit markmið og langar að halda áfram að gera góða hluti og erum með góðan lista af verkefnum og mögulega viðburðum til að vinna að.

Hvað finnst þér að betur mætti fara í samfélaginu í Grindavík?
Ólíkir aldurshópar hafa auðvitað ólíkar þarfir og væntingar. Fyrir minn aldurshóp væri gaman að sjá ungmennahús, vettvang fyrir okkur til að koma saman.

Hvað finnst þér gott við samfélagið í Grindavík?
Grindavík er æðislegur staður og hér er gott að búa. Ég held að samheldni og samhugur sé það besta, hér þekkjast flesir og ef eitthvað bjátar á sér maður strax að bæjarbúar taka höndum saman. Íþróttalífið blómstrar og bærinn okkar er hreinn og fallegur.

Ef þú fengir að ráða öllu innan bæjarstjórnar Grindavíkur, hvað myndir þú taka ákvörðun um?
Sem ungur ökumaður í umferðinni færu allir mínir kraftar í yfirstandandi tilraunir á verulegum lagfæringum á Grindavíkurvegi. Annað skiptir minna máli í dag.

Karín Óla Eiríksdóttir
Formaður Ungmennaráðs Grindavíkur

 

Viðtalið má finna í vefútgáfu Bæjarmálatíðinda Lista Grindvíkinga sem má lesa hér.

Jólatíðindi G-listans komin út

Um leið og Listi Grindvíkinga óskar ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári birtum við hér jólatíðindi okkar rafrænt í ár. Í blaðinu er að finna helstu upplýsingar um það sem er í gangi í bæjarmálunum; reksturinn, húsnæðismál, dagvistunarmál, íþrótta- og menningarmál, Grindavíkurvegur og svo er viðtal við formann Ungmennaráðs Grindavíkur auk hugvekju frá Elínborgu sóknarpresti.  Við tókum umhverfisvæna stefnu í útgáfumálum og ætlum aðeins að hafa blaðið rafrænt þessi jól. Við viljum þakka þeim fyrirtækjum sem svöruðu kallinu og lögðu okkur lið með því að auglýsa í blaðinu og gerðu útgáfu þess að veruleika. Þá færum við þeim Jóni Steinari Sæmundssyni og Halla Hjálmarssyni kærar þakkir fyrir virkilega fallegar myndir af Grindavík og Grindavíkurkirkju.

Súpufundur G-listans í kvöld kl.19:30

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á efri hæð Salthússins í kvöld klukkan 19:30 – ATH breytta tímasetningu! Til umræðu verða málefni bæjarstjórnarfundarins sem haldinn er á morgun, þriðjudaginn 19.desember kl.17:00. Þetta er jafnframt síðasti bæjarmálafundur ársins.

Í boði verður súpa og brauð, heitt verður á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Bæjarmálafundur G-listans í kvöld

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á efri hæð Salthússins í kvöld klukkan 20:00. Til umræðu verða málefni bæjarstjórnarfundarins sem haldinn er á morgun, þriðjudaginn 28.nóvember kl.17:00. Bæjarstjórn hefur undanfarnar vikur unnið að fjárhagsáætlun sem verður nú tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Í boði verður súpa og brauð, heitt verður á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Dagskrá fundar bæjarstjórnar má nálgast hér. 

Súpufundur G-listans í kvöld kl.20:00

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á efri hæð Salthússins í kvöld klukkan 20:00. Til umræðu verða málefni bæjarstjórnarfundarins sem haldinn er á morgun kl.17:00. Bæjarstjórn hefur undanfarnar vikur unnið að fjárhagsáætlun sem m.a. verður tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn á morgun.

Í boði verður súpa og brauð og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Ríkur vilji til að koma Grindavíkurvegi á samgönguáætlun

Nú í aðdraganda Alþingiskosninga sendi undirrituð fyrirspurn á formenn allra flokka sem buðu fram til þings auk annarra frambjóðenda í Suðurkjördæmi. Fyrirspurnin snéri að ástandi Grindavíkurvegar og hvort viðkomandi flokkur og eða þingmaður hyggðist beita sér fyrir því að koma veginum á áætlun. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Telur þú, og þinn flokkur, ástand Grindavíkurvegar viðunandi eins og hann er núna? Ef ekki, munuð þið beita ykkur fyrir því í að koma honum á samgönguáætlun til að auka öryggi íbúa svæðisins og þeirra ferðamanna sem um hann fara, allt árið um kring?

Ásamt fyrirspurn voru send fjölmörg gögn málinu til suðnings, m.a. skýrslur og úttektir Vegagerðarinnar.

Það skal tekið fram að fyrirspurnin var send tveimur dögum fyrir kosningar og frambjóðendur og formenn flokka eðlilega á fullu. Svar barst frá fjórum flokkum og vil undirrituð þakka svörin fyrir hönd Samráðshóps um bættan Grindavíkurveg. Þau eru eftirfarandi:

Smári McCarthy fyrir hönd Pírata sem náði inn sem jöfnunarþingmaður Suðurkjördæmis:

 Svarið er nokkuð einfalt: nei, Grindavíkurvegur er ekki í ásættanlegu ástandi. Hann er fyrst og fremst hættulega mjór miðað við umferðarþunga. Ég var sjálfur næstum rekinn út af veginum af rútu úr gagnstæðri átt fyrr í vikunni. Ég vil gjarnan beita mér fyrir því að hann komist á samgönguáætlun með breikkun og frekari vegabætur í huga, samanber úttektina sem þú hjálagðir.

Oddný Harðardóttir fyrir hönd Samfylkingarinnar sem náði kjöri sem þingmaður Suðurkjördæmis:

Samfylkingin telur að ástand Grindavíkurvegar sé óviðunandi. Við munum beita okkur fyrir því að hann verði lagaður til að auka öryggi þeirra sem um hann fara sem fyrst og að hann verði á næstu samgönguáælun og áætlun um fjármögnun framkvæmdanna fylgi með.

Ari Trausti fyrir hönd Vinstri grænna sem náði kjöri sem þingmaður Suðurkjördæmis:

Ég tel ekki að Grindavíkurvegur sé nægilega góður sem slíkur og ekki heldur að umferðaröryggi þar sé nægilegt. Hef m.a. farið nýlega yfir málefnið meðbæjarstjóra og umhverfisfulltrúa á fundi okkar í Grindavík.  Mun beita mér sem þingmaður í Suðurkjördæmi fyrir úrbótum og töku verkefnisins inn í áætlanir.

Ásmundur Friðriksson fyrir hönd Sjálfstæðisflokks sem náði kjöri sem þingmaður Suðurkjördæmis: 

Þakka þér fyrir fyrirspurnina. Ástand Grindavíkurvegar er ekki viðundandi og verður að komast í betra horf. Ég mun beita mér fyrir því að Grindavíkurvegur komist á Samgönguáætlun, auk þess sem ég styð allar góðar tillögur til bættra samgangna við Grindavík.

 

Þar höfum við það. Ég efast ekki um að fleiri flokkar séu þessu sammála og muni einnig leggjast á árarnar með að koma veginum á áætlun. Fyrir liggur hugmynd frá Samráðshópi að ráðast í framkvæmdir á hættulegustu köflunum til að bregðast við sem fyrst. Sú hugmynd hefur verið send Vegagerðinni en nú er það nýrrar ríkisstjórnar að fjármagna og vonandi endurmeta forgang Grindavíkurvegar og koma á áætlun.

 

Kristín María Birgisdóttir

formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar.

 

 

Viðvarandi skekkja á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fór fram um helgina í Reykjanesbæ var rætt, enn og aftur, að fjárframlög til ríkisstofnana hér á Suðurnesjum er lægra en annars staðar. Fundurinn ályktaði eftirfarandi um menntamál og heilbrigðismál sem hvoru tveggja eru gríðarlega mikilvæg málefni. Við vonum sannarlega að ákallið okkar hverfi ekki út í vindinn og að ný ríkisstjórn bregðist við sem fyrst.

Menntamál:

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 harmar viðvarandi skekkju á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum. Þetta birtist ekki síst í framlögum til menntastofnana á svæðinu sem mega sætta sig við mun lægri framlög en sambærilegar stofnanir. Þannig eru framlög til Fjölbrautaskóla Suðunesja 1.436 þúsund krónur á hvern nemanda í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 á meðan sambærilegir framhaldsskólar annars staðar á landsbyggðinni fá að jafnaði um 1.761 þúsund á hvern nemanda. Þetta er óásættanleg mismunun sem er erfitt að skilja.

Þá er áhyggjuefni að framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru lang lægst á Suðurnesjum auk þess sem áætluð fjárframlög til Keilis setja rekstur skólans enn einu sinni í uppnám þrátt fyrir fyrirheit af hálfu ríkisins um annað.

Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri heldur en á öðrum landsvæðum og honum fylgja mörg krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu. Því skorar aðalfundurinn á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði.

Heilbrigðismál:

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 skorar Heilbrigðisráðherra að auka fjármuni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sérstaklega til heilsugæslusviðs.  Biðtími eftir tíma hjá lækni getur verið allt að tvær vikur sem getur ekki talist ásættanlegt.  Fram kemur í úttekt á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja sem gerð var af Embætti Landlæknis í maí s.l. að mönnum lækna og hjúkrunarfræðinga sé ónóg og lítið megi bera út af svo að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar.  Auk þess að heilsugæslan sé augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega sé ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna. 

Jafnframt kemur fram að húsnæði Heilsugæslunnar í Reykjanesbæ sé barn síns tíma og uppfylli ekki nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis heilsugæslustöðva.  Mikilvægt er að húsnæðið verði lagað og uppfylli kröfur sem gerðar eru til þess. 

Fundurinn gerir kröfu um uppbyggingu hjúkrunarrýma á Suðurnesjum. 

Sé gengið út frá forsendum miðspár Hagstofu Íslands um fjölgun aldraðra til ársins 2025 má búast við að öldruðum íbúum á Suðurnesjum fjölgi um 857 á næstu 10 árum og 1708 á næstu 20 árum.  Sé stuðst við reiknireglu ráðuneytisins þyrftu að vera 182 hjúkrunarrými á Suðurnesjum árið 2025 og 267 rými árið 2035.  Í dag eru aðeins 118 skilgreind hjúkrunarrými á Suðurnesjum. 

Þessi staða er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf, mæti nútíma- og framtíðarþörfum í málaflokknum og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins.  Fundurinn skorar því á Velferðarráðherra að beita sér fyrir bragarbót í öldrunarþjónustu á Suðurnesjum þar sem ríki og sveitarfélögin verði leiðandi í nýrri nálgun í heildrænni þjónustu við aldraða.

 

Mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum  var haldinn föstudag og laugardag, 29.-30.september. Að venju voru teknar fyrir ályktanir þar sem farið er þess á leit við ríkið að bregðast við í þeim málaflokkum þar sem umbóta er þörf. Langmestur tíminn fór í að ræða samgöngumál á svæðinu enda víða pottur brotinn þar eins og margoft hefur komið fram. Fundurinn óskaði eftir að stjórn SSS fengi fund sem fyrst með nýjum samgönguráðherra eftir kosningar til að fara yfir þessi áherlsuatriði Suðurnesjamanna í samgöngumálum. Öll sveitarfélög á Suðurnesjum voru sammála um að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni og var ályktunin samþykkt í þessari mynd:

 • Ljúka þarf tvöföldun vestanverðrar Reykjanesbrautar að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og huga að öryggi vegtenginga að nærliggjandi bæjarfélögum.
 • Tryggja þarf öryggi á Grindavíkurvegi með því að hefja undirbúnings sem fyrst að lagningu „2+1“ vegar frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík.
 • Nauðsynlegt er að ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir þjóðvegunum bæði að Garði og Sandgerði auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjanna.
 • Sveitarfélögin, Vegagerðin og Isavia þurfa að vinna saman að því að auka möguleika fólk til að ferðast fótgangandi og á hjólum á Suðurnesjum með uppbyggingu stígakerfis bæði á milli byggðarkjarna og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
 • Halda þarf áfram að vinna markvist að sjóvörnum með strönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að verjast landbroti af völdum ágangs sjávar.
 • Tryggja þarf að stuðningur ríkisins til uppbyggingar hafna sé í samræmi við samþykkt Svæðisskipulag Suðurnesja þannig að hægt sé að halda áfram með uppbyggingu stórskipahafnar í Helguvík og tryggja stöðu Grindavíkurhafnar og Sandgerðishafnar sem fiskihafna.
 • Auka þarf framlög til vetrarþjónustu á þjóðvegum á Suðurnesjum þannig að hún sé í samræmi við verklagsreglur Vegagerðarinnar um aukna umferð.
 • Mikilvægt er að landshlutasamtök fái nægt fjármagn til að hægt sé að reka almenningssamgöngur án halla enda þær grundvöllur fyrir því að Suðurnesin geti talist eitt atvinnusvæði og að fólk komi til og frá vinnu á stærstu vinnustöðum svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í Bláa lóninu.
 • Stærsta og mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar er alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði og tryggja þarf að starfsemi og nauðsynleg uppbygging þar geti verið í samræmi við þarfir íslensks samfélags.

 

Súpufundur á Salthúsinu í kvöld

Listi Grindvíkinga heldur sinn mánaðarlega bæjarmálafund í kvöld klukkan 20:00 á efri hæð Salhússins. Til umræðu eru málefni bæjarstjórarfundarins á morgun og annað sem fundarmenn vilja ræða.

Í boði verður súpa og brauð. Allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Grindavíkurveg á samgönguáætlun

Ljósmynd: Otti Sigmarsson

„Það myndi kosta yfir 600 milljarða að gera vegakerfið á Íslandi mjög gott. Við erum bara svo fámenn þjóð m.v. stærð og umfang vegakerfisins. Sjáið Danmörku, lítið land með marga skattgreiðendur. 6 milljón manna þjóð.“ Þetta er bláköld staðreynd fyrir íslensku þjóðina. Þessa staðreynd lagði núverandi samgöngumálaráðherra, Jón Gunnarsson á borð fyrir okkur, fulltrúa Grindavíkur, á fundi með honum í vor. Þetta er rétt hjá honum. Það kostar hellings fjármuni að halda samgöngum ásættanlegum  og mjög víða er pottur brotinn. Þess vegna er eðlilegt að forgangsraða. En okkur getur sannarlega greint á um hvað eigi að vega þyngra en annað. Grindavíkurvegur á að vera á samgönguáætlun.

Í vetur kom saman hópur til samráðs um hvenig best væri að nálgast ríkisvaldið varðandi umbætur á Grindavíkurvegi. Fulltúar bæjarstjórnar, bæjarstjóri og fulltrúar stærstu fyrirtækjanna í Grindavík komu saman til skrafs og ráðagerða. Í vor höfðum við nokkur farið á fund með Vegagerðinni, samgöngumálaráðherra og fjármálaráðherra. Þar lögðum við fram gögn og myndir og lýstum verulegum áhyggjum með ástand Grindavíkurvegar og lögðum fjölmörg rök fram til að réttlæta veru vegarins á samgönguáætlun. Þangað hefur hann enn ekki komist.

Núverandi framkvæmdir á veginum

Grindvíkingar hafa orðið varir við framkvæmdir á veginum í sumar og núna í haust. Slitlag var lagað á verstu köflum með malbikun og síðan hefur hann verið holufylltur. Í svari frá vegamálastjóra við fyrirspurn minni fyrir helgi sagði hann að ljúka ætti framkvæmdum við holufyllingar fyrir veturinn. Þá væri ennþá verið að vinna að því að bregðast við umferðaröryggisáætluninni sem unnin var í vor. Hún snérist í stóru máli um að laga umhverfi vegarins þar sem útafakstur væri lang algengastur þegar fjöldi slysa var greindur. Unnið er að því að laga kanta og fláa og verið er að reikna út kostnað til að setja upp vegrið á einhverjum stöðum.

Fjölmargir hafa lýst yfir áhyggjum varðandi nýja slitlagið og talið það vera of sleipt og að það geti valdið hættu þegar rignir mikið og fer að frysta. Vegamálastjóri var m.a spurður út í þetta í fyrirspurn minni. Hann sagði Vegagerðina hafa verið að vakta samskonar kafla við Hamraborgina í Kópavogi. Viðnámsmælingar hafi sýnt að viðnám væri vel yfir viðmiðunarmörkum og nokkrum mánuðum seinna hafði viðnám aukist enn frekar. Um leið og nagladekk færu í notkun myndi yfirborðið breytast og ekki verða svona slétt. Að fara í aðgerðir til að laga núverandi stöðu myndi ekki endilega skila okkur betra yfirborði. Ergo: nýja slitlagið á að vera öruggt.

Tvær tillögur á borði Vegagerðarinnar varðandi Grindavíkurveg

Í samantekt í minniblaði sem Vegagerðin sendi bæjarráði í vor lágu fyrir tvær tillögur. Í stað þess að eyða tíma í að umorða þær legg ég þær hér fram eins og þær komu fram í minnisblaðinu ásamt niðurstöðu minnisblaðsins:

Tillaga 1, lagfæring hliðarsvæða og sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit8.

Afleiðingar umferðaróhappa verða alvarlegri ef hraði er mikill. Afar mikilvægt er að ná hraða niður á Grindavíkurvegi. Aðgerðir á vegum til að bæta umferðaröryggi felast oft í að lagfæra hliðarsvæði vega þannig að skaði verði sem minnstur við akstur út af vegi. Þegar er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við hliðarsvæði Grindavíkurvegar á þessu ári.

Með sjálfvirku meðalhraðaeftirliti er átt við nýja aðferð sem reynst hefur afar vel erlendis enrannsóknir sýna að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hefur mjög jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Það fer þannig fram að tvær myndavélar eru samtengdar og teknar eru myndir af öllum ökutækjum sem fara um kaflann á milli myndavélanna, fyrst við myndavél A og síðan við myndavél B. Vegalengdin á milli vélanna er þekkt og út frá tímanum sem það tekur ökumann að aka á milli þeirra má því reikna meðalhraða hans á kaflanum. Ef meðalhraðinn reynist það mikill að ljóst sé að ekið hafi verið á ólöglegum hraða er gripið til viðeigandi aðgerðar lögum samkvæmt.

Með þessari lausn má búast við verulegri fækkun slysa með meiðslum á fólki auk þess sem alvarleiki þeirra slysa sem verða verður minni. Ekki verður komið í veg fyrir slys sem verða við að ekið er framan á annað ökutæki en allur útafakstur verður hættuminni og hraðakstur fátíðari.

Tillaga 2, aðskilnaður akstursstefna

Til að koma í veg fyrir akstur framan á annað ökutæki verður að aðskilja akstursstefnur. Vegagerðin hefur lengi talað fyrir slíkum lausnum en því miður er það svo að ýmsir vegir færu væntanlega ofar í þá forgangsröðun en Grindavíkurvegur sökum umferðarþunga. Aðskilnaður akstursstefna yrði skv. vegtegund B12. Miðjuvegrið yrði á miðdeili sem þýðir breikkun vegar um að lágmarki 2 metra. Jafnframt þarf að lagfæra hliðarsvæði veganna og tryggja lágmarks framúrakstursmöguleika en skv. veghönnunarreglum skal tryggja að lágmarki þrjá möguleika á framúrakstri á hverjum 5 km. Loka þarf eins mörgum tengingum og kostur er á og halda þannig fjölda vegamóta í algjöru lágmarki. Lágmarksfjarlægð á milli vegamóta á slíkum vegi er 1,2 km. Áætlaður kostnaður er 1.400 m kr. Fjöldi vegamóta og lengd hliðarvega er áætlað.

Með þessari lausn má búast við að komið verði í veg fyrir slys þar sem ekið er framan á annað ökutæki. Afleiðingar af útafakstri verða minni þar sem hliðarsvæði vega verða lagfærð á sama hátt og í tillögu 1.

Athuga þarf matskyldu slíkra framkvæmda m.t.t. þess að stór hluti veglínunnar er á svæði sem er á náttúruminjaskrá.

 Niðurstaða.

Ljóst er að mikil ásókn er í fé til samgöngumála og að mörgum brýnum verkefnum hefur verið frestað eða þau jafnvel ekki komist á dagskrá. Ávinningur af tillögu 1 yrði mjög mikill og líta mætti á þær aðgerðir sem fyrsta áfanga í að auka umferðaröryggi á Grindavíkurvegi. Með því að minnka hraða og lagfæra hliðarsvæði má búast við verulegri fækkun slysa með meiðslum auk þess sem alvarleiki þeirra slysa sem verða verður minni. Dýrar aðgerðir eins og að skilja að akstursstefnur kalla á hönnun, könnun á matsskyldu og mögulega breytingar á skipulagi. Slíkt tekur tíma og hefja mætti þá vinnu samhliða framkvæmdum skv. tillögu 1.

 

Það er væntanlega hlutverk Vegagerðarinnar að leggja fram raunhæfar tillögur m.v. stöðuna sem uppi er hverju sinni og það fjármagn sem stofnunin hefur til viðhalds og endurbóta. Við höfum margoft tekið það fram að úrbætur á Grindavíkurvegi þoli enga bið. Það er hins vegar ekki í höndum Vegagerðarinnar að setja veginn inn á samgönguáætlun. Við þurfum áfram að berjast fyrir því á vettvangi ríkisvaldsins.

Samráðshópurinn hefur hug á að hittast fljótlega og fara yfir stöðuna (erum að finna tíma sem hentar sem flestum). Það eru ákveðin tækifæri núna að herja á þá stjórnmálaflokka sem bjóða fram til þings í lok október. Jón Gunnarsson sagði í vor að mögulega gæti Grindavíkurvegur komist inn á áætlun í haust eða í síðasta lagi um áramótin við endurskoðun samgönguáætlunar. Mjög líklega mun ekkert gerast hvað það varðar fyrir kosningar. Við höldum þó enn í vonina þrátt fyrir að endurnýjun og uppstokkun liggi fyrir hjá ríkisvaldinu. Vonandi munum við mæta skilningi og fá verulegar umbætur í gegn á handónýtum vegi eftir kosningar.

 

Kristín María Birgisdóttir

Formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar

 

 

Staða dagforeldraþjónustu og húsnæði leik- og grunnskóla

Á dögunum birtist vandað viðtal við bæjarstjóra Grindavíkur, Fannar Jónasson á vefsíðu mbl.is. Viðtalið var með mjög jákvæðum blæ þar sem blaðamenn  sýndu uppgangi og íbúafjölgun hér í Grindavík mikinn áhuga. Fram kom að lóðir eru orðnar af mjög skornum skammti. Leggjast þarf í vinnu við að deiliskipuleggja ný svæði ef við ætlum að hafa nægt framboð lóða í boði. Öflugir innviðir eru mjög mikilvægir samhliða íbúafjölgun.

Hvað þola innviðirnir mikið?

Það er mjög eðlilegt að í kjölfarið spyrji íbúar sig hvort innviðir samfélagsins þoli frekari aukningu. Eigum við nægt pláss hjá dagforeldrum og leikskólum? Er nægt rými í grunnskólanum fyrir mikla fjölgun?

Dagforeldraþjónusta

Mikil eftirspurn er eftir þjónustu dagforeldra enda mikilvægt að foreldrar hafi úrræði til að komast út á vinnumarkaðinn, áður en börnin ná 18 mánaða aldri sem er lágmarksaldur á leikskólann. Þessi þjónusta við foreldra yngstu krílanna er ekki lögbundin. Hún er hins vegar mjög mikilvæg. Til stendur að byggja rými hjá Krílakoti fyrir dagforeldraþjónustu en ljóst var fljótlega í vor að slíkt myndi ekki nást fyrir haustið. Til bráðabirgða verður notast við útikennslustofu hjá grunnskólanum. Það skal tekið fram að það er eingöngu tímabundið. Bæjaryfirvöld könnuðu marga kosti í stöðunni og varð þetta samhljóða niðurstaðan.

Áður en ákvörðun var tekin um að huga að byggingu nýs rýmis og í kjölfarið finna einhverja lausn áður en rýmið yrði klárt var búið að fara aðrar leiðir sem áttu að vera hvetjandi fyrir fólk að taka að sér þessa þjónustu. Þær virkuðu ekki eins og vonast var til og ljóst að sú leið að bjóða upp á húsnæði til leigu undir dagforeldraþjónustu var það sem þurfti til. Einhverjir dagforeldrar eru að hætta og enn óljóst hversu margir munu taka að sér þessa þjónustu í heimahúsi.

Leikskólinn

Í fyrra var settur á laggirnar starfshópur sem hafði það hlutverk að vinna framtíðaráætlun um hvernig yrði brugðist við fjölgun nemenda. Starfshópurinn skilaði af sé góðu verki en helstu niðurstöður eru hér fyrir neðan. Skipun starfshópsins er einmitt merki þess að við erum að hugsa til framtíðar. Niðurstöðurnar eru að sjálfsögðu eitthvað sem við munum taka inn í fjárhagsáætlunargerð í haust. Fólk hefur gagnrýnt bæjaryfirvöld fyrir að ætla ekki að bregðast við þessum niðurstöðum. Það er ekki rétt. Við erum sífellt að taka stöðuna á biðlistum og fjölda nemenda við skólana og við munum að sjálfsögðu huga að næstu skrefum hvað varðar aukningu rýmis svo skólarnir anni fjölgun.

Skólastjórnendur beggja leikskóla og grunnskóla lögðu fram greinargerðir um fjölda barna í skólunum miðað við núverandi skólahúsnæði.  Nokkrar vangaveltur voru uppi um hámarksfjölda barna í leikskólum en engin hlutlæg viðmið eru að finna í reglugerðum þar um eins og áður.  Samkvæmt gildandi löggjöf ber leikskólastjóra að leggja mat á hámarksfjölda barna í skólanum út frá mismunandi sjónarmiðum og getur fjöldi barna verið breytilegur frá ári til árs á þeim grundvelli.  Samkvæmt greinargerð stjórnenda leikskólanna er æskilegur hámarksfjöldi barna í varanlegu húsnæði 96 nemendur á Laut en 105 á Króki.  Í útistofu við Leikskólann Laut (Garðhús) er rými fyrir 16 nemendur.  Það er samhljóma skoðun fulltrúa í vinnuhópnum að útistofan eigi að vera tímabundin lausn til að fjölga leikskólarýmum í sveitarfélaginu. (minnisblað starfhóps)

Tillögur um aðgerðir v/leikskóla:

 • Stækka lóðina við Stamphólsveg 1 (Krókur) til vesturs á kostnað Víkurbrautar 64. Láta hanna viðbyggingu/stækkun við Leikskólann Krók um 2 deildir , með tilliti til allra viðeigandi þátta. Horfa til þess möguleika að viðbyggingin verði austan megin við núverandi húsnæði, með bílastæðum vestan megin. Útistofa við Laut verður áfram í notkun þar til nýr leikskóli rís í Hópshverfi.
 • Hefja undirbúning deiliskipulags vegna nýs leikskóla í Hópshverfi.

Hér fyrir neðan verða birtar frekari upplýsingar úr minnisblaði starfshópsins. Tillögurnar verða allar teknar fyrir í fjárhagsáætlunarvinnunni sem hefst í september og að sjálfsögðu reynt eftir fremsta megni að finna lausn.

Grunnskólinn

Engin viðmið hafa verið í löggjöf um fjölda barna í grunnskóla en mörg sjónarmið eru ráðandi þar um, s.s. samsetning árganga og nemendahópa, sérkennsluþörf o.fl.  Fyrirséð er að alvarleg staða skapast í Hópsskóla næstkomandi skólaár ef ekki verður gripið til meiri háttar breytinga í aðstöðumálum skólans.  Grunnskólinn hefur til umráða tvær útistofur sem unnt er að nota í kennslu næstu 2 – 4 árin, en líkt og hjá leikskólanum er sú lausn óviðunandi nema til bráðabirgða. (minnisblað starfshóps)

Tillögur um aðgerðir v/grunnskóla:

 • Aðgerð sem þar að vera komin til framkvæmda fyrir haust 2017
 • Færa tvær útistofur við Ásabraut austan megin við Hópsskóla til að mæta auknum nemendafjölda á næstu 3 – 5 árum uns byggt verður við skólann. Stækka þarf núverandi byggingareit til að koma stofunum að og huga vel að staðsetningu þeirra svo þær verði ekki fyrir viðbyggingu.
 • Fækka um einn árgang í Hópsskóla og færa yfir á Ásabraut til að mæta auknu álagi í Hópskóla, nýta þær útistofur sem fyrir eru við Ásabraut

 

 • Aðgerð sem hrinda þarf í framkvæmd í upphafi árs 2017
  1. Taka upp án dráttar fyrirliggjandi teikningar á viðbyggingu við Hópsskóla, leggja mat á það hvort/hvernig þær uppfylli þarfir skólans til c. 2030 og leggja eftir atvikum í frekari hönnunarvinnu. Horfa til þess að unnt verði að fjölga árgöngum í Hópsskóla innan þriggja ára til að mæta fjölgun nemenda. Í því sambandi má velta upp tveimur kostum:
   1. Fjölga árgöngum í Hópsskóla
   2. Breytt skólagerð, leik- og grunnskóli í sama húsnæði

Íbúaþróun til 2030

Vandi er að spá fyrir um íbúaþróun til lengri tíma.  Vísbendingar eru uppi um að þróunin gæti orðið töluverð á tímabilinu ef marka má skýrslu Byggðastofnunar um búsetuþróun á Íslandi til ársins 2030 (sept. 2016) en í henni er spáð að íbúum á Suðurnesjum fjölgi úr 22.509 (2016) í 34.845 (2030) eða um 54,8%.  Samsvarandi fjölgun í Grindavík samkvæmt framangreindu væri úr 3.192 (2016) í 4.941 (2030).  Ef horft er til þessarar spár þyrfti nettó-fjölgun íbúa að vera u.þ.b. 3,2 % á hverju ári.  Sé litið til núverandi íbúasamsetningar yrði vöxtur barna á leik- og grunnskólaaldri verulegur á tímabilinu.  Þó ber að líta til þess að margar breytur ráða íbúaþróun til lengri tíma og geta sveitarstjórnir haft áhrif á þróunina með ýmsum hætti. Til dæmis með framboði lóða. (úr minnisblaði starfshóps)

Rétt er að vekja athygli á því að árgangur 2016 er nokkuð afbrigðilegur miðað við aðra árganga en ætla má að hann fari ekki umfram 35 börn miðað við fæðingar þar sem af er ári (til og með september 2016). Í þessu sambandi er einnig vert að horfa til þess að aukin krafa er á landsvísu, bæði á hendur ríki og sveitarfélögum, að koma því til leiðar að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði og að börn eigi þess kost að hefja leikskólanám við þann aldur. (úr minnisblaði starfshóps)

Samantekt úr minnisblaði:

Það er mat vinnuhópsins að sambærileg staða verði uppi í leikskólum sveitarfélagsins næsta haust (2017), þ.e. að öll börn sem orðin verða fullra 18 mánaða við upphaf skólaársins komist inn.  Foreldrar barna sem verða fullra 18 mánaða á síðara tímamarki geta ekki treyst því að börn þeirra komast inn á næsta skólaári.  Á komandi skólaárum má hins vegar vænta þess að staðan vænkist og unnt sé að taka inn börn eftir því sem skólaárinu vindur fram.  Því má ætla að ástandið í leikskólum sveitarfélagins verði viðunandi næstu 3 – 5 árin.  Mikilvægt sé hins vegar að hrinda af stað því ferli sem þarf til að tryggja aukið varanlegt leikskólahúsnæði í sveitarfélaginu innan 5 ára.  Í því sambandi þarf sérstaklega að huga að þeim möguleika að börn hefji nám í leikskóla við 12 mánaða aldur.

Það er mat vinnuhópsins að mikilvægt sé að grípa til aðgerða án dráttar til að stemma stigu við því ástandi sem fyrirsjáanlega skapast í grunnskólanum frá og með hausti 2017.  M.v. óbreytta stöðu verður nemendafjöldi í Hópsskóla með þeim hætti að verulega komi niður á starfsemi skólans.

Ég skil vel að leikskólapláss og dagforeldraþjónusta brenni á foreldrum ungra barna sem og annarra í bæjarfélaginu. Ég held ég geti fullyrt að bæjarfulltrúar Grindavíkur vilji sannarlega finna lausn á því að fækka biðlistum. Fyrsta skrefið var að setja starfhópinn á laggirnar. Nú er að vinna áfram með tillögurnar í fjárhagsáætlunargerðinni sem framundan er.

Hvað varðar húsnæði grunnskólans þá hefði útistofan sem fyrirhugað er að nýta tímabundið undir dagforeldraþjónustu ekki orðið fyrir valinu ef ætlunin hefði verið að nota hana til kennslu.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að innviðir Grindavíkurbæjar þoli frekari fólksfjöldun og þess vegna þarf efling þeirra að fara fram samhliða auknu lóðaframboði.

 

Kristín María Birgisdóttir

Formaður bæjarráðs Grindavíkur

Bæjarmálafundur í kvöld kl.20:00

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn á efri hæð Salthússins í kvöld kl.20:00.

Á dagskrá eru málefni bæjarstjórnarfundar morgundagsins og annað sem fundarmenn vilja ræða eða koma á framfæri. Allir velkomnir!

Stjórn G-listans

Ráðherrar skilja brýna þörf fyrir umbætur á Grindavíkurvegi

Við áttum fína fundi með tveimur ráðherrum í morgun, þeim Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra. Við afhentum á báðum stöðum minnisblöð okkar  og fórum yfir stöðuna með þeim. Þeir sýndu málinu báðir mikinn skilning og vita hversu brýnt er að gera ráðstafanir.  Jón Gunnarsson sagði mjög líklegt að við endurskoðun samgönguáætlunar myndi Grindavíkurvegur fara þar inn í haust eða um áramót. Hann væri þó ekki einn um þá ákvörðun.

Fjármagnið liggur ekki á lausu til að fara í stórar framkvæmdir. Það stendur þó til að afgreiða viðbótarfjármagn við samgönguáætlun á næstunni skv. upplýsingum frá samgönguráðherra. Við erum búin að minna vel á okkur en þurfum að fara núna í þingmennina og fá þá í róðurinn með okkur. Næsti fundur okkar í samráðshópnum er á miðvikudaginn 22.mars kl.17:00 og ætlum við að nýta hann í að fara yfir stöðuna og stilla saman strengi okkar. Við höfum boðað Ásmund Friðriksson, þingmann og formann samgönguráðs á þann fund. Aðrir þingmenn eru að sjálfsögðu velkomnir. Við viljum fyrir alla muni koma Grindavíkurvegi inn á samgönguáætlun.

Undirrituð ásamt Fannari Jónassyni, bæjarstjóra, Otta Sigmarssyni einum eigenda Hópsness og Grími Sæmundssen forstjóra Bláa Lónsins voru fulltrúar hópsins á fundinum í morgun. Á fundinum afhentum við minnisblað með nokkrum staðreyndum um Grindavíkurveg og hvers vegna ætti að forgangsraða fjármagni í veginn. Eftirfarandi punkta fengu ráðherrar og hans starfsfólk:

 • Grindavíkurvegur er einn slysamesti og áhættusamasti vegur landsins samkvæmt greiningu EuroRAP.
 • Á árunum 2007 til 2016 varð eitt banaslys á Grindavíkurvegi og 16 alvarleg slys. Alls urðu 124 slys og óhöpp á þessum vegi á þessu tímabili. Á árinu 2017 hafa þegar orðið 2 banaslys.
 • Umferð um Grindavíkurveg við Seltjörn hefur aukist um nærri 60% milli áranna 2011 og 2016 samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar. Árið 2016 fóru að meðaltali nærri 5.000 bílar daglega um veginn yfir sumartímann og meira en 3.700 yfir vetrartímann.
 • Íbúum í Grindavík hefur fjölgað um nærri 14% á síðastliðnum fimm árum og mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði og byggingarlóðum í bæjarfélaginu. Íbúafjölgun ein og sér mun því valda auknum umferðarþunga á Grindavíkurvegi.
 • Bláa Lónið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og gera má ráð fyrir mikilli aukningu ferðamanna sem allir fara um Grindavíkurveg. Árið 2016 var gestafjöldi Bláa Lónsins yfir ein milljón og að meðaltali komu 48 rútur þangað daglega auk mikils fjölda fólksbíla. Rútuferðirnar einar og sér til og frá Bláa Lóninu voru því samtals um 35.000.
 • Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins. Uppskipaðar sjávarafurðir í Grindavíkurhöfn voru 43.000 tonn árið 2015 og var þeim öllum keyrt um Grindavíkurveg til frekar vinnslu, sölu eða útflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Grindavík er rúmlega 20 milljarðar króna. Sama ár var um 20.000 tonnum af fiskisalti landað í Grindavík sem var dreift í saltfiskverkanir á öllu Suðvesturhorninu. Þá er áætlað að tæplega 20 milljónir lítra af eldsneyti fari um Grindavíkurhöfn árlega sem síðan er ekið um Grindavíkurveg.
 • Gríðarlega mikil fjárfesting og uppbygging er á svæðinu fyrir tugi milljarða og mikilvægt að ríkið fylgi á eftir með öflugum og öruggum samgöngum. Má þar helst nefna uppbyggingu fiskeldis hjá Matorku, Íslandsbleikju og Stolt Sea Farm ásamt umfangsmiklum hótelframkvæmdum við Bláa Lónið. Allar þessar framkvæmdir munu auka umferð um Grindavíkurveg verulega.
 • Í farþegaspá Isavia sem gerð var í október 2016 er gert ráð fyrir rúmlega 25% aukningu ferðamanna á Íslandi á árinu 2017. Hér ber að nefna að svigrúm til aukningar á sumarmánuðum er takmarkað en aukning í öðrum mánuðum getur verið allt upp undir 60% miðað við rauntölur 2016. Samkvæmt tölum frá Isavia jókst fjöldi farþega í janúar á milli áranna 2016 og 2017 um 70%.
 • Á Grindavíkurvegi er engin vegöxl og á honum eru fá tækifæri til þess að stöðva ökutæki en slíkt skapar mikla hættu. Ferðamenn sem aka um veginn eru gjarnir á að stöðva bifreiðar sínar til þess að taka myndir eða fylgjast með norðurljósunum í myrkri. Slíkt athæfi getur verið stórhættulegt.
 • Á það hefur verið bent að Grindavíkurvegur kunni að vera frábrugðinn ýmsum öðrum vegum og oft ófyrirsjáanlegur. Hann liggur um hraun og við hann er orkuver og stöðuvatn. Hálka getur myndast óvænt og hefur Vegagerðin bent á að lega vegarins, landslag og staðbundið veðurlag geri það að verkum að erfitt geti reynst að sjá fyrir hálkumyndun.
 • Umferð um Grindavíkurveg er sérstök að því leyti að þar blandast saman miklir daglegir þungaflutningar, fólk á leið til og frá vinnu og svo ferðamenn sem hafa aldrei keyrt veginn áður. Þá er mikið um unga ökumenn sem sækja framhalds- eða háskólanám utan Grindavíkur. Auk bílstjóra og farþega eru einnig á ferðinni gangangi og hjólandi vegfarendur. Þetta skapar mikla hættu vegna misræmis á umferðarhraða og umferðarmenningu þessara þriggja ólíku hópa í bland við aðra hefðbundna umferð.
 • Grindavíkurvegur liggur um grannsvæði vatnsbóla sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Að mati sérfræðinga gæti aðeins 500 lítra olíuslys haft víðtæk áhrif og alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum en öll heimili og fyrirtæki á svæðinu notast við vatnsból sem er í námunda við veginn, þar með talinn Keflavíkurflugvöllur.

Í útreikningum okkar á umferð annars vegar um Grindavíkurveg frá 2009 og hins vegar um Reykjanesbraut kemur fram að umferð hefur aukist verulega um Grindavíkurveg eða um tæp 60% – það er um 13% umfam þá aukningu sem orðið hefur á Reykjanesbraut. Við erum með þessari ábendingu alls ekki að gera lítið úr þörf fyrir að klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Það er líka mjög aðkallandi. Við erum að benda á að mesta aukning umferðar af öllum vegum landsins hefur orðið á Grindavíkurvegi.

Á fundi með ráðherra í morgun var farið yfir helstu staði sem brýnt er að laga í vegakerfinu. Ráherra sagði mjög líklegt að brugðist yrði við með einhverjum hætti þó svo ekki væri hægt að veita nákvæm svör enda liggur ekki ljóst fyrir hversu mikið viðbótarfjármagn verður sett í  samgönguáætlun. Eitthvað svigrúm sé þó undir svokölluðum viðhaldslið en hann er um 8,1 milljarður.

Vegferð okkar að bættari Grindavíkurvegi er hafin en henni er alls ekki lokið. Báðir ráðherrar skilja okkar áhyggjur og átta sig á nauðsyn þess að laga veginn og gera hann öruggari. Það er verið að leita leiða til að finna fjármagn og því eðlilega ekki hægt að lofa einhverju eftir fundinn. Líklega er fátt meira svekkjandi en svikin loforð.

Í minnisblaði frá ríkisstjórninni er Grindavíkurvegur nefndur sem einn af þeim vegum sem þarf að laga. Mikilvægt er að við látum rödd okkar heyrast og höldum áfram að eiga samtalið við yfirvöld. Við finnum meðbyr með verkefninu og það er sannarlega verið að hlusta á okkur. Við munum halda áfram að þrýsta á umbætur eins og við mögulega getum.

 

f.h. samráðshóps um bættan og öruggari Grindavíkurveg

Kristín María Birgisdóttir

forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar

 

 

 

Brýnt að auka öryggi á Grindavíkurvegi

Ástand Grindavíkurvegar hefur legið þungt bæði á íbúum og bæjaryfirvöldum í mörg ár. Vegurinn er mjög fjölfarinn og ljóst að umferð um  hann mun aðeins aukast. Það er því mjög brýnt að farið verði í að laga hann sem allra fyrst.

Samráðshópur myndaður

Samráðshópur um bættari og öruggari Grindavíkurveg var settur á laggirnar í janúar. Hópinn skipa fulltrúar bæjaryfirvalda, bæjarstjóri og fulltrúar frá stærstu fyrirtækjunum í Grindavík; Bláa Lóninu, Þorbirni, Vísi, Hópsnesi og Jóni og Margeir. Málstaðurinn er þess eðlis að með því að leggjast saman á árarnar eru vonir um að eitthvað verði að gert og öryggi aukið.

Fulltrúar samráðshópsins, undirrituð, Fannar Jónasson bæjarstjóri, Vilhjálmur Árnason þingmaður, Otti Sigmarsson einn eiganda HP gáma og Jón Gunnar Margeirsson einn eigenda Jóns og Margeirs áttu góðan fund með vegamálastjóra og fleira starfsfólki sl. fimmtudag. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel undurbúinn bæði vegamálastjóri og starfsfólk hans var fyrir komu okkar. Greinagóð gögn lágu fyrir, bæði varðandi umferð um veginn, slysatíðni og með hvaða hætti þau eiga sér stað ásamt dreifingu umferðar yfir sólarhringinn.

Fundur með vegamálastjóra

Óskað var eftir fundi með vegamálastjóra til að ræða ástand Grindavíkurvegar og mögulegar lagfæringar m.t.t. umferðaröryggis. Vegamálastjóri gerði á fundinum grein fyrir stöðu fjárveitinga til umferðaröryggisaðgerða annars vegar og til stærri framkvæmda hins vegar ásamt því að ræða stöðu samgönguáætlunar almennt. Fjárlög ársins 2017 gera ráð fyrir mun lægri fjárveitingum til vegamála heldur en samgönguáætlun gerði ráð fyrir sem er mjög miður. Meginreglan er að sögn Vegagerðarinnar að forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun sé fylgt þó fresta þurfi ákveðnum framkvæmdum milli ára. Framkvæmdir, sem ekki hafa verið á áætlun, lendi að jafnaði aftar í tíma við endurskoðun.

Fulltrúar samráðshópsins gerðu grein fyrir vaxandi óöryggi og jafnvel skrekk í íbúum vegna þeirra slysa sem orðið hafa á Grindavíkurvegi í gegnum tíðina. Umferðaraukning er mikil vegna fjölgunar ferðamanna, en einnig vegna íbúafjölgunar í Grindavík og aukinnar starfsemi á Bláa Lóns-svæðinu, m.a HS-veitna. Ákveðið var að gera sérstaka umferðaröryggisúttekt á Grindavíkurvegi á næstunni í samræmi við reglugerð um umferðaröryggisstjórnun vega. Úttektin mun m.a. ná til öryggissvæðisins við hlið vegar. Gerð verður áætlun um lagfæringar til að öryggissvæðið uppfylli núgildandi kröfur í veghönnunarreglum. Hér er t.d. verið að tala um að fjarlægja hraunklappir sem eru of nærri veginum.

Umferð aukist verulega frá 2009

Að sjálfsögðu lagði samráðshópurinn ríka áherslu á fundi sínum með vegamálastjóra að mikilvægt væri að fara strax í aðgerðir. Ljóst er á öllum tölum að umferð um Grindavíkurveg hefur aukist verulega. Ef við skoðum gögn vegagerðarinnar um umferðaraukningu frá árinu 2009-2016 má sjá eftirfarandi:

 • Meðalumferð á dag allt árið hefur farið úr 2.702 í 4.232 (57%)
 • Meðalumferð á dag yfir sumartímann hefur farið úr 3.029 í 4962 (64%)
 • Meðalumferð á dag yfir vetrartímann hefur farið úr 2.393 í 3.731 (56%)

Meðaldreifing umferðar á veginum yfir daginn er þannig að mest er álagið klukkan 16:00 á virkum dögum og klukkan 15:00 á föstudögum. Hægt er að skoða dreifinguna betur á meðfylgjandi mynd.

Vegagerðin mun gera kostnaðaráætlun fyrir „2+1 veg“ alla leið frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík. Fulltrúar Grindavíkurbæjar munu, í viðræðum við fjárveitingavaldið, áfram leggja höfuðáherslu á endurbætur Grindavíkurvegar, en ljóst er að aðskilnaður akstursstefna, hvort sem er fyrir 1+1 veg eða 2+1 veg, verður ekki framkvæmdur nema til komi sérmerktar fjárveitingar. Við höfum því óskað eftir fundi með fjármálaráðherra til að þrýsta frekar á um fjárveitingar svo gera megi Grindavíkurveg öruggari.

Umferðarslys samfélaginu dýr

Í svörum við fyrirspurn sem Vilhjálmur Árnason þingmaður sendi heilbrigðisráðherra varðandi kostnað sem hlýst af þeim fjölda  umferðarslysa sem eiga sér stað víða um land fengust tölurnar 50 milljarðar á ári. 50 þúsund milljónir.

M.v. fjölda ferðamanna og farþegaspá ISAVIA næstu ár er morgunljóst að aðgerða er þörf og ástandið þolir enga bið. Þeim fjölgar stöðugt sem ekki þekkja vegakerfið og hafa litla sem enga reynslu af því að aka um íslenska vegi. Af þeim sökum er gríðarlega mikilvægt að gera vegakerfið okkar þannig að það taki við þegar ökumaður gerir mistök og að mistökum fækki.

Stöðvun í vegkanti stórhættuleg

Fjölmörg dæmi er um að erlendir ferðamenn leggi bílum sínum úti í vegkanti eða hreinlega á miðjum veginum til að skoða hraunið eða norðurljósin. Það er bara tímaspursmál hvenær illa fer. Meðan ekki hafa verið gerðar breytingar á veginum er mjög mikilvægt að bæði þeir sem fara um veginn og þeir sem selja ferðir hingað eða leigja út bílaleigubíla brýni fyrir ökumönnum að slíkt athæfi er lífshættulegt og hefur þegar kostað fólk lífið. Þessar áhyggjur lýstum við á fundi með vegamálastjóra í síðustu viku.

Vegamót við Bláa Lónið

Bláa Lóns vegamótin (Norðurljósavegur) voru rædd sérstaklega, en reynslan sýnir að bæta þarf merkingar, því margir ökumenn átta sig ekki á stefnugreiningum. Þá var bent á að hliðarhalli væri óþægilega mikill í austustu akreininni og að setja mætti upp stórt skilti norðan vegamótanna með lengri fyrirvara um að þau væru framundan. Bent var á að ferðamenn stöðvuðu bíla sína í vegkanti nánast hvar sem er á leiðinni, en þó kannski mest við grófa hraunið milli Norðurljósavegar (inn að Bláa Lóninu) og Gíghæðar. Þessir bílar valda verulegri hættu fyrir aðra umferð. Rætt var um áningarstað á Gíghæð við hellisopið, en umferð að og frá áningarstaðnum er vaxandi og veldur truflun og jafnvel hættu. Fram kom tillaga um að aðskilja hægri beygju af Norðurljósavegi og gera aðrein á Grindavíkurveginn til suðurs en það myndi gera vegamótin auðskiljanlegri og þar með auka öryggi og draga úr truflun af hægfara bílum. Einnig var rætt um þann möguleika að reyna að beina „heimamönnum“ á að nota syðri hluta Norðurljósavegar, vestan Þorbjörns, til að draga úr umferð á vegamótunum við Grindavíkurveg. Á veturna þyrfti þá að sinna þessum hluta vegarins, jafnvel í samvinnu Vegagerðarinnar og bæjarins.

Hvaða leiðir eru færar?

Í umræðum á fundi með vegamálstjóra kom m.a. fram að ekki væri ráðlegt að aðskilja akstursstefnur á stuttum kafla, sem einungis myndi leiða til meiri þrýstings á framúrakstur utan þess kafla. Við í bæjarstjórn lítuum jákvætt á hugsanlegt sjálfvirkt hraðaeftirlit með myndavélum, en það hefur ekki verið sérstaklega rætt við lögregluyfirvöld. Vegagerðin hefur verið að reyna sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit, sem gæti verið áhrifamest á Grindavíkurvegi, en til þess skortir heimild innanríkisráðuneytisins auk myndavélabúnaðar. Vegagerðin mun eins og áður segir gera kostnaðaráætlun fyrir „2+1 veg“ alla leið frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík. Við fulltrúar bæjarins munum síðan, í viðræðum við fjárveitingavaldið, áfram leggja höfuðáherslu á endurbætur Grindavíkurvegar, en ljóst er að aðskilnaður akstursstefna, hvort sem er fyrir 1+1 veg eða 2+1 veg, verður ekki framkvæmdur nema til komi sérmerktar fjárveitingar. Undirrituð hefur þegar óskað eftir fundi með fjármálaráðherra og bíður eftir að fá svör um tímasetningar þess fundar.

 

F.h. Samráðshóps um bættan og öruggari Grindavíkurveg

Kristín María Birgisdóttir

Forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar

 

 

Ítarlegri gögn um slys á Grindavíkurvegi

Hér á eftir má líta á frekari gögn vegagerðarinnar um þau slys og óhöpp sem orðið hafa á Grindavíkurvegi frá janúar 2009  – 31. október 2016

Í gögnum frá vegagerðinni hafa verið teknar saman upplýsingar um öll þau slys og óhöpp sem orðið hafa á Grindavíkurvegi frá 1. janúar 2009 – október 2016. Í þessum gögnum eru ekki meðtalin þau slys sem orðið hafa það sem af er árinu 2017.

Banaslys: 1

Slys með miklum meiðslum: 14

Slys með litlum meiðslum: 30

Eignatjón: 45

Skiptingu slysa eftir tegundum og afleiðingum má sjá betur í meðfylgjandi töflu. (hægt er að smella á mynd til að sjá stærri)

 

Eins og sjá má er útafakstur til hægri m.v. akstursstefnu algengasta slysategundin eða í 49% tilfella. Þegar einungis eru skoðuðu slys með meiðslum sést að um er að ræða útafakstur til hægri í 26 tilvikum eða um 58% allra slysa með meiðslum eða bana á kaflanum. Ef einungis eru skoðuð slys með miklum meiðslum eða bana sést að í sjö tilvikum, 47% var ekið út af til hægri.

 

Á þessari mynd má sjá kort af öllum slysum á Grindavíkurvegi frá janúar 2009 – 31. október 2016:

 

Svartur punktur táknar banaslys, rauður punktur stendur fyrir  slys með miklum meiðslum, gulur punktur táknar slys með litlum meiðslum og grænn punktur stendur fyrir eignatjón.

Alls urðu 46 slysanna eða um 51% allra slysa á kaflanum á þessu athugunartímabili, í hálku, ísingu eða snjó. Skipting slysanna við þessi skilyrði má sjá í þessari töflu:

 

 

Slysin sem verða í hálku, ísingu eða snjó eru langalgengast þannig að ekið sé út af vegi til hægri, miðað við akstursstefnu, eða í 31 tilviki af 45 sem er þá í 67% tilvika. Á eftirfarandi mynd má sjá kort af þeim slysum sem urðu á Grindavíkurvegi á athugunartímabilinu, í hálku, ísingu eða snjó.

 

 

Akstursstefnur aðskildar

Samráðshópurinn hefur lagt ríka áherslu á að akstursstefnur á Grindavíkurvegi verði aðskildar. Þær hugmyndir lögðum við líka á borð fyrir vegamálastjóra og hans sérfræðinga í síðustu viku. Í gögnum vegagerðarinnar er sá möguleiki reifaður og aðstæður þegar slysin urðu.

Aðskilnaður akstursstefna með uppsetningu vegriðs hefur fyrst og fremst áhrif á þau slys sem verða við það að bifreið ekur framan á aðra og þau slys sem verða við það að ekið er út af til vinstri.

Fjöldi slysa á kaflanum þar sem ekið var framan á eða út af vegi til vinstri urðu 16 á athugunartímabilinu eða í um 18% allra slysa á kaflanum. Þar af urðu 20 slys með meiðslum eða bana eða 22% allra slysa með meiðslum eða bana á kaflanum. Banaslys varð eitt en eru nú orðin þrjú sé það sem af er árinu 2017 tekið með.

Ef einungis eru skoðuð slys með miklum meiðslum eða bana sést að í 4 tilvikum af 15 eða í 27% tilvika var ekið framan á eða út af vegi til vinstri. Myndin hér fyrir neðan sýnir kort af slysum sem urðu við það að bifreið var ekið framan á aðra eða út af vegi til vinstri á umræddum kafla á Grindavíkurvegi á athugunartímabilinu.

 

 

Í sjö af þeim 16 tilvikum, eða í 44% tilvika, þar sem bifreið var ekið framan á aðra eða út af til vinstri, var færð skráð sem hálka, ísing eða snjór. Sjá mynd að neðan.

 

Hálkumyndun á Grindavíkurvegi

Þrír staðir eru varasamastir þegar kemur að hálkumyndun á Grindavíkurvegi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur  vann úttekt á þessum svæðum. Þessir staðir eru við Seltjörn, vegamót að Bláa Lóninu og svo í lautinni við Svartsengi. Eftirfarandi upplýsingar fengum við á fundi með vegamálastjóra þar sem teknar hafa verið saman staðbundnar hálkuaðstæður á Grindavíkurvegi:

Seltjörn

“Kaflinn við Seltjörn er sérlega varhugaverður fyrir margra hluta sakir. Vegurinn liggur í lægð og í beygju að auki. Þarna er eiginlegur kuldapollur, hraunið sunnan og austanvert dregur úr vindi og ofan Seltjarnar eru ásar sem vaxnir eru dálitlum greniskógi og þeir mynda líka skjól. Þarna fellur hitinn fyrr en annars og sé vegurinn blautur kólnar vegyfirborðið niður fyrir frostmark. Í pollum eins og þessum situr kalt loft og úrkoma fellur því frekar sem krapi eða snjór en annars í umhverfinu og einnig getur við viss skilyrði verið frostrigning af sömu ástæðum. Það er einnig mat manna að raki frá Seltjörninni hjálpi til við myndunar héluísingar, en þá verður að hafa í huga að í kuldatíð leggur hana fljótt. “

Vegamót að Bláa Lóninu

“Vegurinn liggur um lægð á um 400 metra kafla beggja vegna við gatnamótin að Bláa Lóninu. Þarna er skjólsælt, bæði dregur gróft hraunið verulega úr vindinum í neðstu metrunum, en aflangt Sýlingafell er að suðaustanverðu veitir skjól sérstaklega í SA-vindi. Þessi staður er ekki sá versti, en samt vathugaverður þegar glerísing á blautum vegi er annars vegar.”

Laut við Svartsengi

“Til móts við orkuverið í Svartsengi fer vegurinn um lægð, en þessi lægð kallast reyndar Svartsengi. Á sama stað er beygja á veginum. Kaflinn nær rétt ofan gatnamóta við borpúða og upp í Selháls undir Þorbirni. Þarna eru varasamar hálkuaðstæður og Sýlingarfellið skýlir fyrir öllum A-lægum vindi. Þarna þykir almennt séð mjög skjólsælt og hraunið í vestri og norðri dempar að auki allan vind. Gufu leggur upp úr hrauninu skammt vestan við þennan stað, en almennt er álitið að hún hafi ekki áhrif á þjóðveginum til aukinnar hélumyndunar. Það er í það minnsta ekki reynsla þeirra sem  hvað best þekkja til á þessum slóðum.”

Umferðaröryggisáætlun Grindavíkurbæjar (október 2010)

Eftirfarandi upplýsingar eru úr umferðaröryggisáætlun Grindavíkurbæjar en hún var m.a. unnin út frá gögnum af íbúafundi sem haldinn var um umferðaröryggismál. Þá hafði almenningur í Grindavík miklar áhyggjur af ástandi vegarins. Í sjö ár hafa bæjaryfirvöld í Grindavík verið í samskiptum við Vegagerðina. Eins og sjá má á þessum liðum hefur þegar verið brugðist við nokkrum þeirra. Grindavíkurvegur heyrir undir Vegagerðina.

1 Þarf að taka veginn í gegn, breikka og malbika upp á nýtt

Svar Vegagerðarinnar: Vegagerðin hefur undanfarin ár unnið að styrkingu axla á Grindavíkurvegi og malbiksyfirlögn. Grindavíkurvegur er á þeim köflum allt að nærri 9 m breiður. Áfram verður unnið að þessum endurbótum næstu ár.

2 Beygjur við Selháls eru slysapunktur.

Svar Vegagerðarinnar: Eftir er að laga axlir og malbika, sjá lið 1.1. Auk þess mun Vegagerðin huga sérstaklega að öryggissvæði Grindavíkurvegar.

3 Axlir eru sprungnar, gætu verið slysagildrur.

Svar Vegagerðarinnar: Sjá svar að ofan.

4 Þarf lýsingu við Grindavíkurveg.

Svar Vegagerðarinnar: Það er ekki á áætlunum Vegagerðarinnar að lýsa Grindavíkurveg. Áhersla Vegagerðarinnar er frekar á að lýsa vegmót sérstaklega.

5 Hvar á að tengja Grindavíkurveg við Selskóg?

Svar Vegagerðarinnar: Vegagerðin er sammála því að þessi tenging er á slæmum stað og tekur vel í að finna henni nýjan og öruggari stað.

6 Þarf að beita sér fyrir eftirfarandi: Hvaða áhrif hefur veður á Grindavíkurvegi, t.d. myndast einungis kuldapollur/frost við Seltjörn. Leiðinleg beygja á sama stað. Hnitaskráning slysa er ekki regla hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hraðaeftirliti er ábótavant.

Svar Vegagerðarinnar: Grindavíkurvegur er í þjónustuflokki 1. Vegagerðinni er kunnugt um að mörg óhöpp á Grindavíkurvegi verða þegar hálka eða ísing er á veginum. Sérstaklega verður fylgst með að þjónustuaðilar bregðist við tímanlega þegar slíkt ástand er væntanlegt.

7 Hjólreiðamenn – hvar eiga þeir að vera á leið til og frá Bláa Lóni (rifflur)?

Svar Vegagerðarinnar: Rifflur verða héðan í frá utan akbrautar, það er niðurstaða tilrauna. Enginn hjólreiðastígur er á áætlunum Vegagerðarinnar meðfram Grindavíkurvegi.

8 Bæta þarf söltun og vetrarþjónustu.

Svar Vegagerðarinnar: Grindavíkurvegur er í þjónustuflokki 1. Vegagerðinni er kunnugt um að mörg óhöpp á Grindavíkurvegi verða þegar hálka eða ísing er á veginum. Sérstaklega verður fylgst með að þjónustuaðilar bregðist við tímanlega þegar slíkt ástand er væntanlegt.

 

Myndir af ástandi Grindavíkurvegar á c.a. 5km kafla. Otti Sigmarsson tók myndirnar:

Fyrsti bæjarmálafundur eftir sumarfrí

Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn í kvöld, mánudaginn 29. ágúst kl. 20:00 að Víkurbraut 25 (gamla pósthúsið).

240Á dagskrá verða málefni bæjarstjórnarfundar morgundagsins og annað sem fundarmenn vilja ræða. Á morgun er fyrsti bæjarstjórnarfundur eftir sumarfrí og verður fundurinn sem fyrr sýndur beint á netinu.  Bæjarstjórnarfundurinn verður að þessu sinni í Gjánni meðan framkvæmdir standa yfir í húsnæði bæjarskrifstofa.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Bæjarmálafundur í kvöld kl.20:00

summer-wallpaper-2Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn í kvöld, mánudaginn 30. maí kl. 20:00 að Víkurbraut 25 (gamla pósthúsið).

Á dagskrá verða málefni bæjarstjórnarfundar morgundagsins og annað sem fundarmenn vilja ræða. Á morgun er síðasti bæjarstjórnarfundur fyrir sumarfrí en engir bæjarstjórnarfundir verða í júní og júlí heldur fer bæjarráð með fullnaðarafgreiðslu mála. Bæjarstjórnarfundurinn verður sem fyrr sýndur beint á netinu og verður útsending að þessu sinni frá Gjánni.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Menningarvikan formlega sett – ávarp formanns bæjarráðs

mennóÍ dag var menningarvika Grindavíkur sett í áttunda sinn við hátíðlega athöfn í kirkjunni. Frábær tónlistaratriði stóðu upp úr og ljóst að við eigum gríðarlega efnilegt tónlistarfólk hér við Tónlistarskóla Grindavíkur. Lokaatriði hátíðarinnar var endurkoma barnakórs Grindavíkur 1977-1981 en þar var samankominn hópurinn sem söng svo eftirminnilega í Stundinni okkar hér um árið. Á meðfylgjandi mynd má sjá systkinin Eniku Máneyju og Magnús Engil flytja saman lagið Heyr mína bæn sem var dásamlega vel gert hjá þeim.

Að venju var svo ávarp fulltrúa bæjarstjórnar og sá Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs um að færa kveðju bæjarstjórnar í meðfylgjandi ávarpi:

 

Screen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AMKæru gestir, fyrir hönd bæjarstjórnar býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin á setningu menningarviku sem nú er sett í áttunda sinn með sérstakri áherslu á handverk. Menningarvikan er einn af hápunktum ársins hjá okkur Grindvíkingum og ljóst að ótrúlega margir fá að njóta hæfileika sinna á hinum ýmsum sviðum auk þess að fá að sýna afrakstur vinnu sinnar undanfarin misseri eða jafnvel ára.

Öllum má vera ljóst að menning er okkur mikilvæg og jafnvel hægt að taka svo djúpt í árinni að hreinlega segja hana lífsnauðsynlega. Menning er í raun allt í kringum okkur. Það skiptir því máli að vel sé haldið utan um menningu og listir. Að því sögðu langar mig að segja sögu úr síðari heimstyrjöldinni þegar hún var í algleymingi. Bretar þurftu að lifa við matarskömmtun og stöðuga ógn af sprengjuárásum. Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra var spurður út í það hvers vegna ríkisstjórn hans héldi áfram að styrkja listir og menningu. Hann játaði að vissulega gæti peningunum verið varið í byssuklúlur, sprengjur eða aðra hluti sem menn nota til að drepa hvorn annan. En síðan sagði hann: Allt eru þetta hlutir sem við berjumst með. En ef við höfum ekki listir eða menningu, fyrir hverju erum við þá að berjast?

Þetta er kjarni málsins. Menning er sú hefð og það umhverfi sem við höfum skapað okkur. Órjúfanlegur þáttur í nærandi og gefandi tilveru sem við eðlilega sækjumst eftir sem mannverur og sem félagsverur.

Það var því ótrúlega gaman að sjá hversu ánægðir íbúar Grindavíkur eru með menningarmálin í sveitarfélaginu. Yfir 70% þeirra sem voru spurðir í þjónustukönnun Gallups meðal 19. stærstu sveitarfélaga landsins, eru ánægðir eða mjög ánægðir með það hvernig við sinnum menningarmálum. Grindavík hefur vaxið mikið hvað varðar menningarþáttinn undanfarin ár og ber þar auðvitað hæst að nefna þessa menningarviku sem nú gengur í garð auk fjölskylduhátíðar okkar Sjóarans síkáta. Af þeim 19 stærstu sveitarfélögum sem tóku þátt í þessari könnun þá er Grindavík í 3ja sæti hvað varðar menningarmál og verður það að teljast ansi gott.

Ég hef sagt það áður og segi það enn. Við erum öll skaparar þeirra menningu sem Grindavík hefur að geyma. Börn, fullorðnir og eldri borgarar. Og hún er auðvitað ekki bara bundin við menningarvikuna eða sjómannahelgina. Það erum við sem sækjum viðburði, bjóðum upp á sýningar á afrakstrinum, mætum með hjálparhönd sem sjálfboðaliðar í félags- og tómstundastarf eða leggjum okkur fram við að halda utan um allt íþróttastarf.  Það verður seint fullþakkað allt það frábæra starf sem unnið hefur verið í sjálfboðastarfi hér í Grindavík.

Að lokum langar mig að óska Helgu Kristjánsdóttur, bæjarlistamanni Grindavíkur sem nú er útnefndur í annað sinn, hjartanlega til hamingju með nafnbótina. Mig langar að þakka henni fyrir sitt framlag til listar og menningar í gegnum árin. Þá vil ég fyrir hönd bæjarstjórnar þakka Þorsteini Gunnarssyni, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs ásamt frístunda- og menningarnefnd fyrir gott skipulag og undirbúning menningarvikunnar. Og aðrir Grindvíkingar, ungir sem aldnir, takk fyrir að gera hjarta og menningu Grindavíkur að því sem það er í dag.

Góða skemmtun!

 

Undirbúningur að uppbyggingu við Víðihíð kominn á fullt

víðihlíðFyrsti fundur vinnuhóps um viðbyggingu við Víðihlíð fór fram í vikunni. Hópinn skipa þrír fulltrúar bæjarráðs ásamt fulltrúa eldri borgara og starfsmanni Miðgarðs. Hlutverk vinnuhópsins er m.a. að sinna hönnun og gerð útboðsgagna fyrir uppbygginguna. Tillögur að hönnun eiga að liggja fyrir 29. apríl næstkomandi.

Í fjárhagsáætlun 2016 og 2017 er gert ráð fyrir fjármagni til uppbygginga fjögurra íbúða við Víðihlíð. Á ætlun eru 84 milljónir 2016 og 36 milljónir 2017, samtals 120 milljónir. Skipulagsvinna er hafin og deiliskipulagstillaga í auglýsingaferli. Ég hvet áhugasama að kynna sér hana á netinu eða á 2. hæð hjá bæjarskrifstofunum.

 Fasteignin Víðihlíð er í sameign Grindavíkurbæjar og Fasteigna ríkissjóðs. Eitt af okkar fyrstu verkum er því að eiga samráð við ríkið og upplýsa um áætlanir Grindavíkurbæjar.

Á áætlun er eins og áður segir að byggja 4 íbúðir og þurfum við því að greina hvaða þarfir notendahópurinn hefur og gera tillögur sem hönnuður vinnur úr. T.d: fjöldi íbúða og stærðir, samsetning íbúða þ.e. einstaklings, par eða þriggja herbergja, búnaður í íbúðum og staðsetning viðbyggingar og tenging við núverandi starfsemi.

Vinnuhópurinn skal jafnframt fjalla rekstrarfyrirkomulag íbúðanna, bæði eldri og nýrra íbúða eins og leigufjárhæð, búseturétt, biðlista, inntöku og forgangur ákveðinn. Fyrirkomulag þjónustu og annað sem máli skiptir varðandi rekstur fasteignarinnar.

Vinnuhópurinn skal skila verkefninu af sér með verklýsingu og útboðsgögnum og starfar áfram sem bygginganefnd á framkvæmdatíma verksins.

Í kjölfar fyrsta fundar var tímaáætlun lögð og er hún eftirfarandi:

15. mars tillögur að frumdrögum að grunnmyndum

1.apríl tillögur að frumdrögum að útlit og drög að grunnmyndum

15 apríl  drög að útliti og grunnmyndum

 1. apríl tilbúin tillaga að hönnun

Þá var ákveðið að fara af stað með 4 íbúðir með möguleika á 2 í viðbót seinna. Þegar  kostnaðaráætlun liggur fyrir verður sú ákvörðun endurskoðuð. Paraíbúðir  eins og við sáum á uppdrætti ,sem nefndist A2 sem var með minna svefnherbergi og stærra baði, fannst okkur góður kostur. Þá voru hugmyndir að setja tengla fyrir þvottavél inn í bað svo fólk gæti verið með sínar eigin þvottavélar. Við vildum líka halda í sama útlit á húsi.

Vonandi varpar þessi stutta samantekt frá fyrsta fundi vinnuhópsins einhverri mynd á hvað er framundan. Það er enn tími til að skila inn athugasemdum við deiliskipulagið við Víðihlíð og ég bendi á að skv. teikningum er appelsínugulur stofnanir en rautt er almennur markaður. Svo má auðvitað alltaf senda ábendingar á vinnuhópinn eða sviðsstjóra skipulagssviðs.

Vinnuhópur:

Kristín María Birgisdóttir (bæjarráð) kristinmaria@grindavik.is

Hjálmar Hallgrímsson (bæjarráð) hjalmar2@grindavik.is

Ásrún Helga Kristinsdóttir (bæjarráð) asrun@grindavik.is

Margrét Gísladóttir (fulltrúi eldri borgara) margis2@live.com

Ingibjörg Reynisdóttir (starfsmaður Miðgarðs) ingareynis@grindavik.is

Starfsmaður hópsins er sviðsstjóri skipulagssviðs Ármann Halldórsson armann@grindavik.is

 

Kristín María BirgisdóttirScreen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AM

Oddviti Lista Grindvíkinga

 

 

 

Bæjarmálafundur í kvöld kl.20

hopmynd1Bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga verður haldinn í kvöld, mánudaginn 22. febrúar kl. 20:00 á 3. hæð Bryggjunnar.

Á dagskrá verða málefni bæjarstjórnarfundar morgundagsins og annað sem fundarmenn vilja ræða.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Listi Grindvíkinga

Íbúar í heildina ánægðir með þjónustuna í Grindavík

 

240Grindavíkurbær hefur nú annað árið í röð tekið átt í þjónustukönnun á vegum Gallup þar sem viðhorf íbúa 19 stærstu sveitarfélaga landsins til þjónustu þeirra er kannað. Könnunin náði yfir tímabilið 13. nóvember 2015 – 5. janúar 2016 og fengust svör frá 146 manns af 300 manna úrtaki. Um var að ræða bæði síma- og netkönnun og var úrtakið handahófsvalið.

Grindavíkurbær kemur mjög vel út úr könnuninni og er ánægja þó nokkur á flestum þjónustuþáttum. Ánægja er mjög svipuð milli ára. Þó eru nokkrir þættir sem má bæta og standa upp úr þar þjónusta við eldri borgara, fatlaða og þjónusta grunnskólans. Eini þátturinn þar sem um marktækan mun er að ræða er þjónustan við eldri borgara.

Það er mjög gott bæði fyrir okkur sem sitjum í bæjarstjórn sem og starfsmenn bæjarins að fá svona endurgjöf frá íbúum því lengi má gott bæta. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem gáfu sér tíma til að svara þessari könnun og einnig þeim sem gáfu sér tíma með ítarlegri athugasemdum og ábendingum í svokölluðum „opnum svörum“. Margt af því getum við farið yfir og gert úrbætur á.

Niðurstöður hafa þegar verið kynntar öllum stjórnendum Grindavíkurbæjar og er nú unnið að umbótaáætlun á þeim þáttum sem ekki koma nægilega vel út.

Mikil ánægja með Grindavík sem stað til að búa á: 

1.mynd Grindavík sem staður til að búa áÞegar íbúar voru spurðir um ánægju með Grindavík sem stað til að búa á voru niðurstöðurnar eftirfarandi: 89% aðspurðra eru ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna í heildina. Af þeim eru 51% mjög ánægðir og 39% frekar ánægðir. 6% segjast hvorki né og 3% eru frekar óánægðir og 2% mjög óánægðir. Í samanburði við hin 19 sveitarfélaginu er Grindavík í 6. sæti og hefur þessi ánægja vaxið milli ára þar sem mjög ánægðum fjölgar og mjög óánægðum fækkar. (Hægt er að smella á myndirnar til að fá stærri myndir af þeim).

 

 

Skipulagsmál:skipulagsmal

Hvað skipulagsmálin  varðar þá eru 51% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir með skipulagsmálin í sveitarfélaginu. 28% eru hvorki ánægðir né óánægðir, 13% eru frekar óánægðir og 8% eru mjög óánægðir. Í raun er staðan svipuð milli ára, mjög ánægðir eru jafn margir milli ára en ánægðum fjölgar og líka þeim sem eru óánægðir og mjög óánægðir. Þá lækkar hlutfall þeirra sem taka ekki afstöðu. Í sambanburði við önnur sveitarfélög er Grindavík í 5. sæti af 19 hvað varðar ánægju með skipulagsmálin.

Gæði umhverfis í nágrenni við heimili:gæði umhverfis

80% aðspurðra segjast ánægðir eða mjög ánægðir með gæði umhverfisins í nágrenni heimilis síns. Langflestir eru frekar ánægðir eða 46%, 34% eru mjög ánægðir, 11% taka ekki afstöðu, 7% eru frekar óánægðir og 1% er mjög óánægðir. Milli ára er hlutfall mjög ánægðra og ánægðra að hækka. Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 4. sæti.

 

Ánægja meðal barnafjölskyldna í sveitarfélaginu:barnafjölskyldur

Þegar kom að þjónustuþætti við barnafjölskyldur eru 76% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. 30% eru mjög ánægðir og 46% eru ánægðir. 17% taka ekki afstöðu, 6% eru frekar óánægð og 1% er mjög óánægður. Ánægjan vex milli ára þar sem bæði mjög ánægðum og ánægðum fjölgar aðallega á kostnað þeirra sem gáfu ekki upp afstöðu sína. Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 3. sæti með þennan þjónustu þátt.

Auka þarf ánægju með grunnskólann:grunnskolinn

Þótt fjölmargir þættir hafi komið vel út í þessari þjónustu könnun þá myndum við auðvitað vilja sjá meiri ánægju með þjónustu grunnskólans. Fjöldi ánægðra og mjög ánægðra er 57% og var það líka í síðustu könnun. Þó hefur fjöldi ánægðra verið að aukast auk þess sem hlutfall óánægðra og mjög óánægðra er að lækka. 28% taka ekki afstöðu 9% eru óánægðir og 5% mjög óánægðir. Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 15. sæti.

 

Mikil ánægja með þjónustu leikskólanna:leikskólinn

Grindavík er ofarlega þegar kemur að þjónustu leikskólanna eða í 4. Sæti af 19 sveitarfélögum. 84% eru mjög ánægðir eða ánægðir. Milli ára er hlutfall mjög ánægðra að lækka en hlutfall ánægðra að hækka. 12% taka ekki afstöðu, 2% eru frekar ánægðir og 1% mjög óánægðir.

 

 

85% ánægð eða mjög ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar:aðstaða til íþróttaiðkunar

Milli ára er hlutfall ánægðra og mjög ánægðra mjög svipað. 49% eru mjög ánægðir með aðstöðuna, 36% eru ánægð, 7% taka ekki afstöðu, 7% eru frekar óánægðir og 1% mjög óánægðir. Töluverð uppbygging hefur verið á svæðinu undanfarin 2 ár, bæði líkamsræktin auk þess sem búningaaðstaðan hefur breyst töluvert frá því sem var. Í sambanburði við önnur sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni er Grindavík í 3. sæti af 19.

 

Hlutfall ánægðra með þjónustu við eldri borgara kemur á óvart:eldri borgarar

Það kom mér á óvart að sjá að hlutfall óánægðra er að aukast milli ára með þjónustu við eldri borgara. Að mínu mati hefur þjónustan í gegnum árin aukist og færst til betri vegar með byggingu Miðgarðs. Framundan er viðbygging við Víðihlíð til að auka íbúðaframboð. Í opnum spurningum var helst nefnt þjónustuþáttinn við eldri borgara sem þyrfti að laga. Nefnd voru matarmálin og íbúðamál. 12% aðspurðra voru mjög ánægðir, 32% voru ánægðir, 29% tóku ekki afstöðu, 18% voru frekar óánægðir og 9 % mjög óánægðir. Í samanburði við önnur sveitarfélög er Grindavík í 15. sæti af 19.

Um helmingur aðspurðra ánægður eða mjög ánægður með þjónustu við fatlað fólk:fatlaðir

Þegar spurt er út í þjónustu við fatlað fólk eru rúm 50% mjög ánægð en 39% taka ekki afstöðu. Þetta háa hlutfall þeirra sem ekki gefa upp afstöðu skýrist líklega af því að frekar afmarkaður hópur íbúa nota þjónustuna og því mögulega ekki þekking á henni til staðar. 10% eru frekar óánægðir og 1% mjög óánægðir. Milli ára helst hlutfall mjög ánægðra í stað en það er 15% en hlutfall ánægðra lækkrar lítillega og fer úr 40% í 36%.  Í samanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 7. sæti.

Grindavík í 3. sæti þegar kemur að menningarmálum:menningarmál

Ánægja eykst lítillega milli ára með menningarmálin. 73% aðspurðra eru ánægðir eða mjög ánægðir með það hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum. 20% taka ekki afstöðu. 5% eru frekar óánægðir og 2% mjög óánægðir. Hlutfall mjög ánægðra er að hækka eins og áður segir lítillega eða um 4% en á sama tíma er hlutfall óánægðra og mjög óánægðra að aukast lítillega líka. Grindavík hefur vaxið mikið hvað menningarþáttinn varðar undanfarin ár og ber þar auðvitað að nefna veglega hátíð yfir sjómannahelgina ásamt árlegri menningarviku. Af 19 sveitarfélögum er Grindavík í 3. sæti þegar kemur að menningar málum sem verður að teljast ansi gott.

Íbúar mjög ánægðir með sorphirðuna:sorphirða

Ánægja með þjónustu hvað varðar sorphirðuna er að aukast milli ára. Hlutfall mjög ánægðra eykst um 8% og fer úr því að vera 29% í 37%. Þá lækkar hlutfall þeirra sem eru mjög óánægðir og óánægðir. 11% taka ekki afstöðu. Í sambanburði við hin 19 sveitarfélögin er Grindavík í 3. sæti.

 

heildarálit

 

Ánægja með þjónustu sveitarfélagsins í heild, bæði út frá reynslu og áliti:

79% aðspurðra eru ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustu í heildina út frá reynslu og áliti. 15% taka ekki afstöðu og 7% eru óánægð eða mjög óánægð. Þessi þáttur hefur vaxið milli ára. Í sambanburði við önnur sveitarfélög er Grindavík hér í 5. sæti.

 

Rúm 60% aðspurðra hafa haft samskipti við bæjar- eða sveitarstjórnarskrifstofur sl. 2 ár:þjónusta bæjarskrifstofa

Færri eru í samskiptum við bæjarskrifstofurnar árið 2015 samanborið við árið 2014. Þessi prósenta hefur lækkað um 9% milli ára og farið úr 70% í 61 %. Niðurstaða könnunarinnar er sú að óánægja er að aukast á milli ára. Hlutfall mjög ánægðra dregst saman um 7% en hlutfall ánægðra er að aukast um 6%. Þá hækkar bæði hlutfall óánægðra sem og mjög ónægðra milli ára. 13% eru óánægðir og 7% mjög óánægðir. Sú niðurstaða skilar sveitarfélaginu 13. sæti af 19.

 

Aðrar upplýsingar:

annað

helst að bæta

sveitarfélagið til að búa á

sveitarfélög í heild

 

 

Samantekt unnin af Kristínu Maríu BirgisdótturScreen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AM

Oddvita Lista Grindvíkinga og formanni bæjarráðs

 

 

Staða leikskóla- og dagvistunarmála

kids-playingÞað hafa líklega fáir farið varhluta af þeirri staðreynd að töluverð fjölgun hefur verið hér í Grindavík undanfarið ár. Það er jákvætt að fólk skuli velja sveitarfélagið sem búsetukost enda er hér dásamlegt að búa. Þegar íbúum fjölgar þarf að huga vel að allri þjónustu og sá  þjónustuþáttur sem skiptir töluverðu máli eru dagvistunar- og leikskólamál. Mig langar í þessari samantekt að varpa ljósi á núverandi stöðu og að unnið sé að því að leysa þann vanda að foreldrar komist jafnvel ekki út á vinnumarkaðinn eftir að fæðingarorlofi lýkur vegna biðlista.  Hér á eftir mun ég vitna í minnisblað unnið af fræðslusviði sem bæði hefur verið tekið fyrir í fræðslunefnd og bæjarráði.

Miðað er við að biðlisti telji börn sem eru orðin fullra 18 mánaða.  Framboð á leikskólaplássum í Grindavík eru 218 sem skiptast svo:

krourlaut

 

 

Næst á eftir koma rauntölur ásamt spá um fjölgun.

Biðlistaþróun 2016, til og með ágúst:

bidlisti

 

 

 

 

Nýtt skólaár í leikskólum í ágúst 2016:

Í byrjun ágúst 2016 hætta börn fædd 2010 í leikskólum og hefja nám í grunnskóla.  Við það hverfa 44 börn úr leikskólunum.  Um er að ræða fámennan árgang.  Á sama tíma hafa öll börn fædd árið 2014 orðið fullra 18 mánaða, auk þeirra barna sem fædd eru í janúar og febrúar 2015.  Miðað við gefnar forsendur hér að framan (55 börn á bið 1. ágúst 2016) þá munu 11 börn (55-44) sem náð hafa 18 mánaða aldri ekki eiga kost á leikskólavist í sveitarfélaginu á næsta skólaári og e.t.v. ekki fyrr en haust  2017 (þá orðin 2 og ½ árs).

Þessi staða þýðir að gera þarf einhverjar ráðstafanir, þó ekki þær að byggja þurfi nýjan leikskóla strax. Fræðslusvið er að fara yfir stöðuna og vinna raunhæfar tillögur til að leysa þá stöðu að hér komist fólk ekki út á vinnumarkaðinn vegna þess að allt er fullt á leikskólum og hjá dagforeldrum.

M.v. þessa stöðu eru tvær leiðir að mínu mati sem hægt væri að fara í fljótlega. Önnur er að bregðast við með sama hætti og gert var við Leikskólann Laut sl. haust, að setja niður útistofu við leikskólann Krók og þar með aukadeild því miðað við þessa stöðu þá náði sú stofa sem sett var við Laut ekki að leysa vandann að fullu.

Hin leiðin er að reyna að reyna að fá fleiri dagforeldra til starfa. Margt gæti komið til þar. T.d. að bærinn leigði út þann búnað sem þarf til að reka slíka starfssemi, eins og kerrur, leiktæki ofl. Jafnvel greiða niður námskeiðskostnað dagforeldra. Ég ítreka að þetta eru aðeins vangaveltur og enn hefur engin ákvörðun verið tekin um hvaða leiðir skuli farnar.

Greina þarf stöðuna heildstætt; út frá fjölgun barna og hvernig hægt er að bregðast við með dagforeldragæslu (einhvers konar hvata frá sveitarfélaginu eins og áður hefur komið fram), hvernig hægt er að fjölgja rýmum á leikskólum (án þess að byggja strax leikskóla) og hvernig og hvort hægt er að nýta skólahúsnæði grunnskólans betur áður en til þess kemur að byggja við Hópsskóla.

Fræðslunefnd bókaði á fundi sínum í janúar eftir að hafa tekið fyrir minnisblaðið um biðlistaþróun eftirfarandi:

Fræðslunefnd leggur til að skólaskrifstofa vinni úr þeim gögnum sem komin eru fram varðandi væntanlega nemendafjölgun í skólum Grindavíkur og vinni tillögur til að bregðast við þeirri nemendafjölgun sem spáð er. Samantekt og tillögur lagðar fram á fundi nefndarinnar í mars.

Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum á þriðjudag sl. 2. febúar og fól skólaskrifstofu jafnframt að fjalla um tillögur sem myndu miða að því að efla þjónustu dagforeldra í Grindavík. Hér er vert að benda á að á síðasta ári samþykkti bæjarstjórn að greiða niður dagforeldragjöld barna sem væru orðin 18 mánaða og kæmust ekki inn á leikskóla. Foreldrar 18 mánaða barna þurfa því aðeins að greiða upphæð sem nemur leikskólagjöldum komist barnið ekki inn á leikskóla við 18 mánaða aldur.

Hér fyrir neðan má sjá biðlistaþróun frá og með ágúst 2016 í máli og myndum.

Biðlistaþróun frá og með ágúst 2016:

mynd0

 

 

 

 

 

 

 

Nýtt skólaár í leikskólum í ágúst 2017:

Í byrjun ágúst 2017 hætta börn fædd 2011 í leikskólum og hefja nám í grunnskóla.  Við það hverfa 58 börn úr leikskólunum.  Samkvæmt því ætti biðlistinn að hreinsast á þeim tíma, naumlega þó.

Rétt er að taka fram að aðeins er horft til rauntalna um fjölda barna sem eru skráð í Grindavík á þeim tíma sem minnisblað þetta er lagt fram. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir einhverri fjölgun barna á leikskólaaldri á tímabilinu.

Skýringarmyndir:

mynd1

 

 

image1 image2

Screen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AMKristín María Birgisdóttir

Oddviti Lista Grindvíkinga og

formaður bæjarráðs

Bæjarmálafundur kl.18 á Bryggjunni

hopmynd1Bæjarmálafundur Lista Grindavíkinga verður á Bryggjunni kl.18:00 í kvöld, á þriðju hæð. Á dagskrá eru fundarefni bæjarstjórnar á morgun. Vegna bikarleiks í körfuknattleik karla var fundi flýtt en við hvetjum auðvitað bæjarbúa til að fjölmenna á leikinn sem hefst kl.19:15 og hvetja strákana til sigurs.

Allir velkomnir og heitt á könnunni.

Stjórnin

Nýárskveðja!

New-year-2016-banner-13

Listi Grindvíkinga óskar bæjarbúum og öðrum gleðilegs nýs árs. Við þökkum fyrir allt á liðnu ári og tökum fagnandi á móti árinu 2016!   

Stjórnin

Ávarp Kristínar Maríu á kjöri íþróttamanns og konu Grindavíkur

Screen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AMKjör íþróttamanns og konu Grindavíkur fór að venju fram á gamlársdag. Fjölmargir glæsilegir íþróttamenn og konur voru tilnefnd en hlutskörpust voru þau Jón Axel Guðmundsson og Petrúnella Skúladóttir sem bæði áttu stórfínt ár í körfunni. Auk tilnefninga voru íslands- og bikarmeistar heiðraðir, bæði meistaraflokkur kvenna ásamt yngri flokkum, ungir og efnilegir íþróttamenn fengu hvatningarverðlaun og veitt voru í fyrsta sinn verðlaun fyrir stuðningsmann ársins. Í lok glæsilegrar dagskrár flutti Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs ávarp fyrir hönd bæjarstjórnar:

 

Ágætu gestir, frábæra íþróttafólk, þjálfarar og aðrir.

íthrottir

Ljósmynd: Siggeir Ævarsson hjá http://www.grindavik.is

Árið í ár hefur verið sérlega glæsilegt eins og allar þessar tilnefningar, viðurkenningar og verðlaun bera augljós merki um. Því er ekki síst að þakka góðu utanumhaldi, öflugu þjálfarateymi, metnaðarfullum iðkendum, og öðrum bakhjörlum. Grindavíkurbær er íþróttabær og hefur í gegnum tíðina stutt við bakið á íþróttahreyfingunni, m.a. tryggt lágt æfingagjald á iðkendur svo allir geti átt kost á að stunda sínar áhugaíþróttir. Á 80 ára ferli Ungmennafélgas Grindavíkur hefur félagið náð að vaxa og dafna með eftirtektarverðum hætti. Það er orðið myndarlegt fjölgreinafélag sem býður upp á fjölbreytta iðkun íþrótta. Starf UMFG er okkur samfélagslega mikilvægt og það ber líka sérstaklega að þakka stuðningi atvinnulífsins við hreyfinguna í gegnum tíðina. UMFG hefur sannarlega tekið þátt í að byggja upp gott samfélag. Ekki bara íþróttasamfélag því að mínu mati  er mikill auður fólginn í íþróttaiðkun. Hreyfing og hreysti íbúa er samfélaginu til tekna.

Í gær var íþróttamaður ársins valinn. Í aðdraganda afhendingarinnar flutti Eiríkur Stefán, formaður samtaka íþróttafréttamanna áhugavert og gott ávarp þar sem megin inntakið var mikilvægi þess að bregðast við og vera vakandi fyrir andlegum veikindum íþróttafólks jafnt sem líkamlegum. Á árinu hafa þónokkrir þekktir íþróttamenn stigið fram og tjáð sig um þunglyndi, þeirra á meðal íþróttamaður Grindavíkur 1993 og 1998, Helgi Jónas Guðfinnsson. Þessari umræðu ber að fagna og á sama tíma tek ég undir með Eiríki Stefáni um að mýtunni um hinn fullkomna íþróttamann þarf að eyða. Vanlíðan er ekki veikleikamerki.

Mig langar í lokin á þessu stutta ávarpi á annars langri og veglegri dagsrá, að flytja erindi úr Grindavíkurbrag Dædu, sem hún samdi í tilefni af 75 ára afmæli UMFG fyrir fimm árum. Bragurinn er langur og veglegur í 12 erindum. 7unda erindið snýr að íþróttalífinu er hljóðar svo:

 

Íþróttalífið blómstrar í bænum okkar góða

Bæjarbúar stoltir mæta á hvern leik.

Körfuboltinn í algleymi, fótboltinn og fleira,

Frískleg börnin okkar lyfta sér á kreik.

 

Fyrir hönd bæjarstjórnar óska ég íþróttamanni og konu Grindavíkur innilega til hamingju með verðskuldaðan titil. Öðrum þeim sem tilnefndir voru óska ég líka til hamingju með góðan árangur, auk þeirra sem hér hlutu verðlaun og viðurkenningar. Við erum stolt af okkar íþróttafólki. Ég vil færa sérstakar þakkir nefndarfólki í frístunda- og menningarnefnd fyrir gott samstarf á árinu. Þá færi ég okkar ágæta sviðsstjóra, Þorsteini Gunnarssyni bestu þakkir fyrir samstarfið,  gott skipulag, utanumhald og góðan stuðning.  Takk fyrir.

Bæjarmálafundur í kvöld kl.20

hopmynd1Síðasti bæjarmálafundur ársins hjá Lista Grindvíkinga verður haldinn í kvöld klukkan 20:00 á Salthúsinu! **ATH breytta staðsetningu**

Til umræðu verður að venju dagskrá bæjarstjórnarfundarins á morgun en þar verður m.a. til umræðu forkaupsréttarákvæði Grindavíkurbæjar á aflaheimildum.

Heitt á könnunni og allir velkomnir!

Stjórnin. glistinn

Hugvekja við tendrun jólatrés

KMtendrunKristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs flutti eftirfarandi ávarp við tendrun jólatrésins, laugardaginn 5. desember:

Kæru Grindvíkingar og aðrir gestir. Gleðilega aðventu!

Aðdragandi jólanna og aðventutíminn er einhver albesti tími ársins að mínu mati og ég veit það það eru mér margir sammála. Ekki síst þið krakkar.

Það er gömul gagnrýni og ný að jólahald sé kaupæði og að oft líti út eins og fólk hafi misst sjónar á boðskapi hátíðanna. Það kann vissulega eithvað að vera til í því að allt þetta umstang sé ekki nauðsynlegt og villi mönnum sýn frá því sem dýrmætast er. Og ég er vissulega þeirrar skoðunar að við megum ekki gleyma innihaldinu á kostnað umbúðanna. Ég held við getum flest verið sammála um boðskap þessa árstíma, óháð trú okkar.

Á þessum tíma er okkur líka nauðsynlegt að leiða hugann að öllum þeim sem af einhverjum ástæðum eiga um sárt að binda og upplifa sorg og harm í stað gleði og friðar á hátíð ljóssins. Og einnig þeim sem í fátækt sinni telja sig ekki geta leyft sér eða veitt sínu fólki þá jólagleði sem þeir óska. Gleymum ekki að sælla er að gefa en þiggja.

Það er þess vegna gott að tilheyra samfélagi eins og Grindavík. Óeigingjart samfélag sem gefur af sér. Hvort sem það er að senda lítinn pakka í verkefnið Jól í skókassa, synda maraþon til styrktar ungbarni með krabbamein, fara til Afríku og styrkja og styðja þá sem verst hafa það í veröldinni eða ganga í hús og safna framlögum til góðgerðamála. Ganga í björgunarsveitina, Kvenfélagið, Kíwanis-klúbbinn. Allt eru þetta gjöfug og góð verkefni sem eru samfélögum svo ómetanleg. Ég þreytist seint á því að telja upp allt það sem Grindvíkingar hafa gefið af sér, bæði til þessa samfélags sem við búum í og til annarra. Hvort sem um er að ræða félagasamtök eða einstaklingsfamtakið.

Hátíðin sem senn gengur  í garð og aðventan sjálf, eru tími samverustunda. Okkur þykir gaman að vera saman, hitta fólkið okkar. Finna innri frið og deila gleðinni með okkar nánustu – fjölskyldu og vinum. Það er á þessum tíma sem ég sjálf fyllist þakklæti fyrir það að eiga að mína náustu. En alveg eins og jólin geta verið besti tími ársins þá er hann fyrir suma sá alversti. Það eru því miður margir sem eru fjarri ástvinum sínum í jólamánuðunum og orna sér við góðar minningar. Það eru líka margir sem að einhverjum ástæðum hugsa til jólanna með kvíðboga í hjarta. Náungakærleikur, umhyggja og nærgætni ætti að vera ofarlega í huga okkar allra. Sérstaklega á þessum tíma, þegar einhverjir eiga um sárt að binda. Brosum hvort til annars, gefum klapp á bakið og veitum faðmlag þeim sem þurfa.

Ágætu Grindvíkingar, mig langar fyrir hönd bæjarstjórnar Grindavíkur að óska ykkur gleðilegra jóla og vona að þið njótið aðventunnar.

Seinni umræða fjárhagsáætlunar!

peningarÍ kvöld verður opinn bæjarmálafundur Lista Grindvíkinga haldinn á Bryggjunni, 3ju hæð og hefst hann klukkan 20:00. Til umræðu verða mál bæjarstjórnarfundarins á morgun. Fjölmörg mál verða á dagskrá en stærsta málið er síðari umræða fjárhagsáætlunar sem hefur nú tekið á sig skýra mynd, ásamt áætlun næstu fjögurra ára. Dagskrá bæjarstjórnar má sjá hér fyrir neðan.

G-listinn hefur haft það að markmiði að vera opinn og óháður vettvangur íbúa Grindavíkur til að koma sínum sjónamiðum og skoðunum um bæjarmálin á framfæri. Við hvetjum því alla þá sem hafa áhuga á að ræða málin að mæta og spjalla milliliða laust við bæði bæjarfulltrúa og nefndarfólk um hvað eina sem því brennur á hjarta.

Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi.

Allir velkomnir,

Stjórn Lista Grindvíkinga.

Dagskrá:

Almenn mál

1.  

1511060 – Fiskeldi á Stað: Breyting á aðalskipulagi.

2.  

1501182 – Deiliskipulag: fiskeldi á Stað

muna að bóka með umhverfissskýrslu -kv Ármann

3.  

1511071 – Deiliskipulag Stamphólsvegar: Breyting

4.  

1509119 – Iðnaðarsvæði Eyjabakka: breyting á deiliskipulagi.

5.  

1511066 – Umsókn um lóð: Skarfasund 5 og 7

6.  

1511074 – Umsókn um framkvæmdaleyfi: kvikmyndataka við Kleifarvatn

7.  

1511069 – Slökkvilið Grindavíkur: Dælubíll

8.  

1508096 – Minja- og sögufélag Grindavíkur: Samstarfssamningur 2015-2018

Undirritaður samningur við Minja- og sögufélagið

9.  

1509069 – Félag eldri borgara í Grindavík: Samstarfssamningur 2016-2018

10.  

1508019 – Handverksfélagið Greip: Stækkun á aðstöðu

Undirritaður samningur við handverksfólk (Greip).

11.  

1505080 – Starfsmannastefna Grindavíkurbæjar: breytingatillaga vegna heilsustyrkja

12.  

1510024 – Ungmennaráð: Breyting á samþykktum

13.  

1511011 – Fjárhagsáætlun 2016: Ákvörðun um álagningarhlutfall útsvars 2016

14.  

1506029 – Fasteignagjöld 2016

15.  

1511012 – Afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignagjöldum : Tekjuviðmið 2016

16.  

1511017 – Þjónustugjaldskrá Grindavíkurbæjar 2016

17.  

1511045 – Fjárhagsáætlun SSS 2016: sameiginlega rekin verkefni

18.  

1506028 – Fjárhagsáætlun 2016-2019: Grindavíkurbær og stofnanir

Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar og stofnana fyrir árin 2016-2019 lögð fram til síðari umræðu.

19.  

1510113 – Grunnskóli Grindavíkur: tillaga að breyttri stjórnun

Móttaka flóttamanna til Grindavíkur

Screen shot 2014-05-20 at 12.13.59 AMÁ bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag, 29. september samþykkti bæjarstjórn með fjórum atkvæðum af sjö að ganga til viðræðna við Velferðarráðuneytið um móttöku flóttamanna. G-listinn studdi þessa tillögu enda er hún að okkar mati góð og nauðsynleg. Ef eitt stöndugasta sveitarfélag landsins ætlar ekki að bjóða fram aðstoð sína hver á þá að gera það? Yfir 25 sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í þessu gjöfuga verkefni og flest þessara sveitarfélaga eru ekki í sömu fjárhagsstöðu og Grindavíkurbær.

Þann 7.september sl. lagði Marta Sigurðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar fyrir beiðni um að vinna minnisblað þannig að að hægt væri að taka ákvörðun um hvort fara ætti í viðræður um að taka við flóttafólki. Afgreiðslan var eftirfarandi:

Fulltrúi S-lista leggur til að bæjarstjóra verði falið að útbúa minnisblað um fyrirkomulag og hlutverk sveitarfélaga við móttöku flóttamanna, kostnað og þátttöku ríkissjóðs, og stöðu húsnæðismála í Grindavík fyrir bæjarstjórn til að geta tekið ákvörðun um hvort ganga eigi til viðræðna við velferðarráðuneytið um mögulega móttöku flóttamanna til Grindavíkur. Minnisblaðið verði lagt fyrir bæjarstjórnarfund þann 29. september næstkomandi.

Samþykkt samhljóða.

Það eru skiptar skoðanir um mótttöku flóttamanna og það er eðlilegt. Það ríkir vissulega ákveðin óvissa en við megum ekki gera ráð fyrir því að allt fari á versta mögulega veg. Tilgangur minn með þessum pistli er að upplýsa aðeins um hlutverk okkar í þessu samhengi og að það eru allar líkur á að flóttamenn komi til með að auðga grindvískt samfélag. Alveg eins og nýbúar og aðrir aðfluttir hafa í gegnum árin gert.

Hlutverk ríkis og sveitarfélaga
Minnisblaðið lá fyrir á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag. Mörgum spurningum var svarað en ennþá er mörgum ósvarað og verður líklega aldrei hægt að svara með neinni vissu. A.m.k. ekki fyrr en fólkið hefur komið og verið hér í einhvern tíma.  Við mótttöku flóttamanna gegnir ríkið ákveðnu hlutverki og síðan gegna sveitarfélög líka ákveðnu hlutverki. Verkefni sveitarfélaga er að veita flóttamönnum þá þjónustu sem sveitarfélög veita íbúum sínum venjulega. Eðlilega má gera ráð fyrir að þarfir flóttamanna séu að mörgu leyti frábrugðnar þeim sem Grindavíkurbær hefur hingað til tekist á við. Okkar verkefni verður engu að síður þetta við móttökuna:

 • Að samræma og aðstoða við aðlögun og að læra á íslenkst samfélag.
 • Útvegun húsnæðis. Sveitarfélagið utvegar húsnæði, en fólkið greiðir leigu af sínum tekjum (fjárhagsaðstoð) og nýtur húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta.
 • Þjónusta leikskóla, grunnskóla, og tónskóla eins og aðrir íbúar. Ljóst er að börnin þurfa mikinn stuðning við aðlögun og tungumálakennslu.
 • Félagsráðgjafar, fjárhagsaðstoðar og aðstoðar við atvinnuleit. Ríkið greiðir fjárhagsaðstoðina og húsaleigubætur samkvæmt samningi. Ljóst er að verkefnið kallar á verkefnisstjóra, sem heldur utanum fólkið og aðstoðar það við að læra á íslenskt samfélag ásamt stuðningsfjölskyldum Rauða krossins.
 • Sálfræðiaðstoðar og stuðnings við að komast yfir möguleg áföll, jafnt í skóla og fyrir fjölskyldur.
 • Enn fremur skal flóttafólki tryggð heilbrigðisþjónusta, íslenskukennsla og samfélagsfræðsla, sem skal fjármögnum samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið.

Að öllum líkindum mun ríkið greiða fyrir þessa þjónustu samkvæmt samningi. Einingaverð liggja ekki fyrir á þessari stundu, en hingað til hefur ekki verið mikill ágreiningar um kostnaðinn heldur frekar um lengd samninganna.

Hlutverk ríkisins

 • Utanríkisráðuneytið greiðir kostnað við móttöku flóttafólks í samræmi við tillögu sem utanríkisráðherra og velferðarráðherra kynna fyrir ríkisstjórn. Á grundvelli hennar eru gerðir samningar við viðkomandi sveitarfélög og Rauða krossinn.
 • Meginreglan er að samningurinn sé til eins árs, en vaxandi þrýstingur og stuðningur er við að samningstíminn sé lengdur. Ekki er komin niðurstaða í þær viðræður.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja 2 milljarða króna til aðstoðar við flóttamenn, sem fari til verkefna á Íslandi og á þeim stöðum sem flóttamenn halda til annarsstaðar í heiminum. Ekki liggur fyrir hve mörgum flóttamönnum verður boðið að koma til Íslands, nákvæm tímasetning, eða hve mikið fjármagn verður til ráðstöfunar.

Grindavík er öflugt samfélag

Grindavíkurbær er öflugt samfélag með sterka innviði. Við höfum langa reynslu af því að taka á móti fólki af erlendum uppruna og köllum okkur stolt, fjölmenningarsamfélag. Hér hafa bæði leik- og grunnskólar miklar reynslu af því að taka á móti erlendum börnum. Innan fræðslu- og félagsþjónustunnar er öflugt teymi sérfræðinga. Hafa ber þó í huga að þrátt fyrir að Grindavík hafi reynslu af því að taka á móti innflytjendum þá höfum við enga reynslu í að taka á móti flóttafólki. Ég efast þó ekki um að okkar samfélag sé tilbúið að taka við verkefninu og sinna því af fagmennsku og alúð.

Hvað kostar þetta okkur?

Það er sú spurning sem hefur brunnið á fólki, a.m.k. miðað við það sem ég hef lesið á Facebook og heyrt í umræðunni. Helsta fyrirstaða okkar í að taka á móti flóttafólki er húsnæði. Við eigum engar íbúðir á lausu. Grindavíkurbær er með allar sínar félagslegu íbúðir í útleigu. Við höfum þó undanfarin ár selt þrjár félagslegar íbúðir. Markmiðið var í fyrstu að reyna að draga úr rekstrarkostnaði við þessar íbúðir og reyna frekar að veita sérstækar húsaleigubætur á almennum markaði. Það er í dag, erfitt að fá húsnæði á almennum markaði.

Ég ber þá von í brjósti að mögulega geti Íbúðalánasjóður veitt okkur íbúðir á sanngjörnu verði. Flest húsnæði í þeirra eigu þarfnast viðhalds og því mun einhver kostnaður fara í það. Hins vegar má ekki gleyma því að ríkið mun standa straum af þessu verkefni á móti okkur. Mögulega er eitthvað leigufélag tilbúið að ganga í verkefnið með okkur. Kaupa íbúðir, gera upp og áfram leigja þær til flóttamanna. Þá efast ég ekki um það eina mínútu að Grindvíkingar séu ekki tilbúnir að leggja sín lóð á vogaskálarnar til að aðstoða við þetta verkefni. Hægt er að leggja ýmislegt til, eins og húsbúnað og annað, í gegnum Rauða kross deildina. Við vitum að margt smátt gerir eitt stórt og Grindvíkingar hafa stórt hjarta og sýna oftar en ekki mikla samstöðu og samhug í verki.

Alþjóðlegt samhengi

Ísland er í alþjóðasamstarfi og það er í raun siðferðisleg skylda okkar að taka þátt í mótttöku flóttamanna með öðrum Evrópuríkjum. Það er ekki sterkt fyrir Ísland að „beila“ á Evrópu enda hefur það ekki staðið til. Ríkið á hins vegar mikið undir okkur sveitarfélögunum að við séum tilbúin í verkefnið með þeim. Ef sveitarfélögin skorast undan þá er þetta ómögulegt fyrir Ísland. Og ef eitt stöndugasta sveitarfélagið ætlar að biðjast undan í þessu ákalli, hver á þá að taka þetta að sér?

2-3 fjölskyldur

Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum ekki við minna en 2 fjölskyldur. Setjum okkur í þeirra spor: Við flýjum hörmungar hér á Íslandi. Lítið sveitarfélag einhvers staðar úti í heimi, sem við höfum aldrei heyrt um, býðst til að taka EINA fjölskyldu. Myndum við í alvöru ekki vilja að a.m.k. einhverjir ættingar eða samborgarar okkar gætu komið og búið með okkur? Veitt okkur stuðning og verið til staðar?

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að með mótttöku flóttamanna er ekki verið að skera í burtu öryggisnet annarra íbúa Grindavíkur. Við munum áfram veita þeim sem á þurfa að halda, viðunandi félagsþjónustu.

Og svona í lokin, þar sem ég var vænd um að ganga eigin erinda í meirihlutasamstarfinu. Það væri nú ekki stórmannlegt að vera ekki á sömu skoðun og samstarfsflokkurinn. Efst í samstarfssamnigni okkar stendur að við reynum að vinna þvert á flokka. Sem við gerum. G-listinn skrifaði undir samstarfssamning við Sjálfstæðisflokkinn og þar liggur samningurinn um verkefnin. Þar kemur ekkert fram um mótttöku flóttamanna.  Pólitíkin í Grindavík er þroskuð og mér finnst við öll vinna eins og fólk. Með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. G-listinn hefur alltaf sagt það að hann muni styðja góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Það eru ekki orðin tóm. Mótttaka flóttamanna er að okkar mati verkefni sem við getum ekki skorast undan og því erum við reiðubúin að taka þátt í verkefninu.

Ef við ætlum alltaf að leggja upp með það að allt fari á versta veg þá eigum við bara að finna okkur eitthvað annað að gera. Ég trúi því að flóttamenn sem hingað koma, geti vel aðlagast samfélaginu okkar og vonandi verður fólk tilbúið fljótlega að fara út á vinnumarkaðinn. Það er okkar að taka á móti þeim, sem og öðrum sem kjósa að koma til Grindavíkur, opnum örmun, með velvild og virðingu. Þannig mun aðlögunin ganga vel og fólkinu mun líða vel. Samfélagið í heil mun alveg örugglega auðgast á því.

Kristín María Birgisdóttir

Oddviti Lista Grindvíkinga

 

 

 

 

Opinn bæjarmálafundur í kvöld kl. 20:00

hopmynd1Listi Grindvíkinga heldur opinn bæjarmálafund á Bryggjunni klukkan 20:00 í kvöld.  Á dagskrá verður efni bæjarstjórnarfundarins á morgun en á þeim fundi verður m.a. farið yfir endurskoðun aðalskipulags Grindavíkur og mögulega móttöku flóttamanna.

Hvetjum áhugasama til að líta við í kaffi og spjall!

Stjórnin

Aðalfundur Lista Grindvíkinga 17. september

glistinnAðalfundur Lista Grindvíkinga verður haldinn fimmtudagskvöldið 17. september næstkomandi. Fundurinn fer fram á Bryggjunni, 3. hæð og hefst hann kl. 20:00. Boðið verður upp á súpu og brauð.

Dagskrá fundarins:hopmynd1

 1. Hefðbundin aðalfundarstörf.
 2. Önnur mál

Listi Grindvíkinga er óháð stjórnmálaafl. Við bjóðum alla velkomna til fundar við bæði bæjarfulltrúa og nefndarfólk. Einnig bjóðum við alla áhugasama Grindvíkinga velkomna í starfið!

Stjórnin